Líftækniiðnaður

Mánudaginn 30. apríl 2001, kl. 16:11:40 (7065)

2001-04-30 16:11:40# 126. lþ. 115.15 fundur 649. mál: #A líftækniiðnaður# (yfirstjórn málaflokksins) frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 126. lþ.

[16:11]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur frammi lætur e.t.v. ekki svo mikið yfir sér í forminu en þegar grannt er skoðað er þetta eigi að síður frv. sem nær til mjög víðtæks sviðs. Eins og segir í frumvarpinu tekur það til atvinnustarfsemi sem byggist á líffræðilegum erfðaauðlindum og þegar maður skoðar hvernig það er skilgreint í 2. gr. frv. þá eru líffræðilegar erfðaauðlindir erfðaefni (DNA- og RNA-kjarnsýrur) sem finna má í hvers konar lífverum og veirum, öðrum en mönnum. Hér virðist því vera um að ræða frv. sem nær til mjög til víðtæks sviðs líftækninnar.

Herra forseti. Hægt er að spyrja mjög margra spurninga hvað þetta frv. varðar og einkum og sér í lagi lúta athugasemdir mínar að því að iðnrh. skuli í þessu frv. falið að fara með svo víðtækt vald og raunin er. Þegar maður skoðar frumvarpið og athugasemdirnar með því, þá virðist a.m.k. að mínu mati við fyrstu skoðun sem ýmislegt í þessu frv. eigi frekar heima undir hv. umhvrn. en það má vel vera að skýringar komi fram í hv. iðnn. við því, herra forseti.

Strax í 1. gr. frv. kemur strax í ljós að um er að ræða skörun við ýmis svið sem eru á vettvangi umhvrh., því í 2. mgr. 1. gr. segir:

,,Um rannsóknir og nýtingu samkvæmt lögum þessum gilda einnig lög um erfðabreyttar lífverur, náttúruverndarlög og önnur lög og reglugerðir sem varða rannsóknir og nýtingu á líffræðilegum erfðaauðlindum.``

Það kemur líka fram í athugasemdum með frv., herra forseti, að því frumvarpi sem hér er lagt fram sé ekki ætlað að vera heildstæð löggjöf á sviði líftækni heldur sé í frumvarpinu fyrst og fremst mælt fyrir um stjórnsýslu á sviði líftækniiðnaðar. Brýnt þykir að mæla fyrir um að líftækniiðnaðurinn lúti eftirliti iðnaðarráðherra og sækja þurfi um viðeigandi leyfi til ráðherra. Í samræmi við þá skipan sem verið hefur er í frumvarpinu mælt fyrir um að iðnaðarráðherra fari með yfirstjórn málaflokksins.

Herra forseti. Ég velti þeirri spurningu upp og óska eftir því að hæstv. iðnrh. svari því hvers vegna ekki hefur verið farin sú leið að setja heildstæða löggjöf um líftækni, löggjöf sem byggði þá á samningnum um líffræðilegan fjölbreytileika, frekar en að týna út úr því sem heyrir undir svið þess samnings hin ýmsu atriði og setja þau undir fleiri en eitt ráðuneyti.

Herra forseti. Ég óttast að með þessu verklagi sé verið að bjóða upp á óæskilega skörun á milli ráðuneytanna sem gæti komið illa niður. En samkvæmt þessu frv., herra forseti, er það þannig að iðnrh. fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum á meðan hæstv. umhvrh. fer með yfirumsjón samningsins um líffræðilegan fjölbreytileika. Þetta hlýtur að geta komið óþægilega niður, herra forseti.

[16:15]

Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. að því líka hvort henni sé kunnugt um það hvort önnur ríki, sem hafa sett löggjöf á grundvelli samningsins um líffræðilegan fjölbreytileika, hafi farið ámóta leiðir eða hvort það hafi ekki verið svo að sett hafi verið heildstæð löggjöf sem nær til allra þátta.

Í 4. gr. frv. segir að iðnaðarráðherra veiti samkvæmt lögum þessum rannsóknarleyfi og nýtingarleyfi en leitað skuli umsagnar umhverfisráðherra. Þarna er því greinilega verið að reyna að taka á þessari skörun. Í 4. gr. segir enn fremur að einnig skuli leita umsagnar umhverfisráðherra áður en nýtingarleyfi er veitt og að iðnaðarráðherra setji nánari reglur um veitingu leyfa til rannsókna og nýtingar á örverum sem finna má á jarðhitasvæðum í samráði við umhverfisráðherra. Það er því greinilegt að þessi skörun hefur verið höfð í huga.

Herra forseti. Maður veltir því líka fyrir sér hvort iðnrn. hafi yfir þeim tækjum að ráða, hvort það búi yfir þeirri þekkingu sem þessi málaflokkur krefst þ.e. ef málaflokkurinn er tekinn undir iðnrn. á þennan hátt. Í 5. gr. frumvarpsins segir t.d. að ekki þurfi sérstakt leyfi samkvæmt lögum þessum til grunnrannsókna, annarra en á örverum á jarðhitasvæðum. En þeim sem stunda grunnrannsóknir sé þó ávallt skylt að tilkynna iðnaðarráðherra skriflega um rannsóknirnar. Ef ég skil þetta rétt þá snýr þessi grein að öllum rannsóknum á sviðinu í Háskóla Íslands og í öllum rannsóknastofum um allt land, þ.e. að iðnrh. þurfi í raun að halda utan um allar tilkynningar um grunnrannsóknir á þessu sviði sem eru í gangi.

Iðnrh. er ekki aðeins falin yfirumsjón með þessum málaflokki heldur fer hann samkvæmt 11. gr. frumvarpsins með eftirlit samkvæmt lögum þessum. Og ef maður skoðar greinargerðina og það hvernig 34. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sem er í raun forveri þessa frumvarps, þ.e. núgildandi lög, þá fer Náttúrufræðistofnun Íslands með eftirlit með rannsókn og nýtingu samkvæmt þessari grein. Einhvern veginn finnst manni nú fljótt á litið a.m.k., herra forseti, að innan þeirrar stofnunar eða annarra stofnana sem kunna að starfa á vettvangi umhvrh. sé sú þekking til staðar sem er nauðsynleg til þess að unnt sé að fara með eftirlit samkvæmt lögunum.

Reyndar segir líka í 11. gr. að iðnaðarráðherra geti með reglugerð falið öðrum aðilum að fara með eftirlitið í heild eða að hluta undir yfirumsjón hans. En þegar greinargerðin er skoðuð eða athugasemdirnar við 11. gr. þá er þetta þrengt verulega frá orðalagi greinarinnar því að þar segir:

,,Í þessari frumvarpsgrein kemur fram að iðnaðarráðherra fer með eftirlit samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Þó er ljóst að hér er um að ræða starfsemi þar sem ýmis önnur stjórnvöld fara með afmarkaða þætti starfseminnar, t.d. á sviði umhverfismála, en þessi grein raskar ekki því fyrirkomulagi. Í greininni er jafnframt ráð fyrir því gert að ráðherra geti falið öðrum stjórnvöldum sem heyra undir iðnaðarráðuneytið að fara með hluta eftirlitsins undir yfirumsjón hans.``

Þetta er ekki eins og textinn hljóðar í frv., herra forseti, heldur er þessi þrenging að þær stofnanir sem hæstv. iðnrh. getur falið að fara með þetta eftirlit eigi að heyra undir iðnrn.

Maður veltir því þess vegna fyrir sér, herra forseti, hvaða stofnanir hæstv. iðnrh. hafi helst í huga eða sjái fyrir sér að gætu farið með þetta eftirlit sem heyra undir iðnrn.

Gott væri að fá svar við því líka hvers vegna horfið sé frá því að taka þetta eftirlit úr höndum Náttúrufræðistofnunar og færa það undir einhverja aðra stofnun sem mundi heyra undir hæstv. iðnrh.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv. nú við 1. umr. Ég geri ráð fyrir því að við fáum skýringar við ýmsu af því sem ég hef spurt um í meðferð hv. iðnn. En ég ítreka hér í lokin þær spurningar sem ég hef lagt fyrir hæstv. iðnrh.:

Af hverju er ekki farin sú leið að setja heildstæða löggjöf um líftækni sem mundi þá heyra undir umhvrh.?

Þekkir hæstv. iðnrh. það hvernig aðrar þjóðir hafa farið með þennan þátt málsins?

Hverjum hefur hæstv. iðnrh. hugsað að fela eftirlit með þessum lögum? Hefur hún í huga einhverja ákveðna aðila hvað það varðar?

Eins og ég sagði áðan sé ég ekki fyrir mér í fljótu bragði að sú þekking sem til þarf að vera til þess að unnt sé að hafa eftirlit með allri þeirri starfsemi sem hér er kveðið á um, og hún er nokkuð viðamikil, sé til staðar í stofnunum sem heyra undir hæstv. iðnrh.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta á þessu stigi málsins að öðru leyti en því að fróðlegt væri að fá að heyra svör við þeim spurningum sem ég hef hér borið fram.