Ábúðarlög

Mánudaginn 30. apríl 2001, kl. 16:51:45 (7072)

2001-04-30 16:51:45# 126. lþ. 115.17 fundur 709. mál: #A ábúðarlög# (mat á eignum) frv., Frsm. HjálmJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 126. lþ.

[16:51]

Frsm. landbn. (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á ábúðarlögum, nr. 64/1976, með síðari breytingum.

Hv. landbn. flytur þetta mál og er aðeins um að ræða leiðréttingu eða lagfæringu á lögunum vegna þess að tvenns konar viðmið eru í gangi um mat á eignum við ábúðarskipti, annars vegar að miða við raunvirði, hins vegar nývirði.

Meiningin var að fella að sjálfsögðu út fyrra viðmiðið, þ.e. raunvirði fyrir nývirði, en fyrir einhvers konar mistök eða gáleysi fór þetta ekki út. Því er tekinn af allur vafi með því að landbn. flytur þetta frv. um að fella brott 2. málsl. 1. mgr. 41. gr. laganna, sem fjallar um raunvirði.

Því mundi greinist orðast svo:

,,Við mat á eignum skulu úttektarmenn leggja til grundvallar efnisleg verðmæti eigna. Mat skal vera nývirði eigna að frádregnum eðlilegum afskriftum reiknað til staðgreiðslu. Nývirði er kostnaður sem því mundi fylgja á matsdegi að smíða nýja eign sem komið gæti að öllu leyti í stað hinnar metnu. Afskriftir eru verðrýrnun eigna sem rekja má til aldurs, hrörnunar, slits, úreldingar og minnkaðs notagildis.

Við mat á þeim endurbótum skal leggja til grundvallar ástand og viðhald eigna að teknu tilliti til aldurs þeirra og eðlilegs slits af notkun.

Úttektarmenn skulu leggja mat á afleiðingar þess að viðhaldi eigna hafi ekki verið sinnt með fullnægjandi hætti eða að gallar eða slit hafi orðið vegna óeðlilegrar notkunar eigna.

Aðrir þættir skulu ekki hafa áhrif á mat á endurbótum á eignum fráfarandi ábúanda.``

Þannig mundi þetta þá orðast. Það er tillaga hv. landbn. að fyrra viðmiðið verði fellt brott. Og vegna þess að landbn. flytur þetta mál er ekki gerð tillaga um að vísa því til nefndar.