Verðmyndun á grænmeti

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 10:07:13 (7076)

2001-05-02 10:07:13# 126. lþ. 116.91 fundur 503#B verðmyndun á grænmeti# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[10:07]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég bið hæstv. landbrh. afsökunar á því að ég kem ekki hingað barinn eins og þræll í ræðustól. Ég tel að hæstv. landbrh. ætti aðeins að reyna að stilla skap sitt, kynna sér þessar tillögur og reyna einhverju sinni að koma fram með afstöðu. Ég skil að vísu vel að hæstv. landbrh. renni í skap vegna þess að hann hefur ekki enn getað tekið þetta mál þeim tökum sem vera ber. Hann hefur ekki enn þá getað staðið við þau orð sem hann hefur látið falla.

Herra forseti. Af því kristilega innræti sem ég hlaut í uppeldi mínu í kjördæmi hæstv. ráðherra þá fyrirgef ég honum þau orð sem hann lét falla. Ég óska hins vegar eftir því að hann ræði þetta mál málefnalega. Ég óska eftir því að hann svari þeim spurningum sem ég hef varpað til hans fyrir hönd íslenskra neytenda. Ég óska eftir því að hann skýri út hvernig stendur á því að hann verður ekki við þeim tilmælum sem koma frá þessari nefnd. Hæstv. landbrh. sagði: Ég ætla að bregðast við af snarræði. Þegar ég spurði hann úr þessum stóli: Hvers konar snarræði er það? Þá sagði hann: Ég ætla að bíða eftir nefndinni.

Nú hefur nefndin skilað af sér. Hvað gerir hæstv. ráðherra? Hann kemur hingað í ræðustól og verður sér til skammar vegna þess að hann hefur ekki unnið heimavinnu sína, kemur bara með köpuryrði og fer með skútyrðum að bræðrum sínum og vinum í hinu háa Alþingi.

Herra forseti. Ég lýsi auðvitað furðu minni á framferði hæstv. landbrh. Hvað þarf hann langan tíma til þess að komast að niðurstöðu? Ætlar hann ekki að standa við þau loforð sem hann gaf íslenskum neytendum? Hæstv. landbrh. lýsti einu sinni háttalagi og hraða þess ráðuneytis sem hann stýrir svo að þar ynnu menn með hraða snigilsins.

Herra forseti. Mér sýnist sem hæstv. landbrh. hafi unnið enn eitt metið. Þar, undir hans stjórn, ferðast menn ekki með hraða snigilsins heldur á hraða steinvölunnar sem stendur alltaf kyrr.