Afbrigði

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 10:20:39 (7082)

2001-05-02 10:20:39# 126. lþ. 116.95 fundur 507#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[10:20]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð nú að segja að mér þóttu svör virðulegs forseta áðan við spurningu minni ekki mikil í roðinu. Svarið var: Samgrh. vill þetta. Lesist: Sjálfstfl. vill þetta.

Það vitum við út af fyrir sig, að þetta er mikið óskabarn og gæluverkefni Sjálfstfl. en það er ekki öflugur rökstuðningur fyrir því að eitthvað liggi sérstaklega fólgið í aðstæðum núna sem krefjist þess að þetta frv. verði að lögum nú í maí í staðinn fyrir að það meðhöndlist í haust eða þá að boðað verði til fundar Alþingis um það sérstaklega með einhverjum hætti.

Engin viðleitni hefur verið í þá átt að ræða við stjórnarandstöðuna um stöðu þessa máls. Hér er hinn vejulegi þjösnaskapur á ferðinni, að þegar stjórnarflokkarnir seint og um síðir hafa hnoðað saman einhverju sem heitir samkomulag sín í milli í umdeildu máli og tekið til þess nokkra mánuði þá er Alþingi einskis virt þegar að því kemur að troða málum hér í gegn. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum, herra forseti, og greiði atkvæði gegn því að þessi afbrigði verði veitt.

(Forseti (HBl): Vegna ummæla hv. þm. þá voru svör mín kannski ekki mikil í roðinu en þau voru sannleikanum samkvæmt.)