Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 10:51:10 (7086)

2001-05-02 10:51:10# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[10:51]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu stóð þannig að málum að hún bauð út þessa þjónustu sem verið er að leita eftir, þ.e. annars vegar mat á verðmæti fyrirtækisins og hins vegar umsjón með sölu á hlutabréfunum.

Það var samið við tvö mjög traust fyrirtæki, annars vegar PriceWaterhouse Cooper og hins vegar Búnaðarbanka Íslands. Bæði þessi fyrirtæki, Búnaðarbankinn og ráðgjafarfyrirtækið, hafa mikla og góða reynslu í slíkri vinnu og tengjast m.a. erlendum fyrirtækjum.

Ég átti í gær fund með fulltrúum beggja þessara fyrirtækja. Þar fékk ég staðfest að enginn fyrirvari er gerður við þann tíma sem til ráðstöfunar er. Ég hef því engar áhyggjur af því að ekki náist að vinna þetta eins og krafist er, að vinnan sé vönduð, örugg og traust.