Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 10:52:24 (7087)

2001-05-02 10:52:24# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[10:52]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég spurði ekki hvort hæstv. ráðherra teldi að þessi tvö fyrirtæki hefðu nægan tíma til að sinna vinnu sinni vel. Ég spurði hins vegar hvort hann teldi að Síminn hefði tíma til að vinna gögnin nægilega hratt og nægilega vel. Hæstv. ráðherra kvaðst hafa talað við þessi tvö fyrirtæki en hann hefur greinilega ekki talað við Símann eða einkavæðingarnefndina sjálfa.

Mig langar þess vegna að upplýsa hæstv. ráðherra um að í síðustu viku var fundur í einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar þar sem starfsmaður hennar, sem jafnframt er starfsmaður forsrn., sem hefur unnið með Símanum að undirbúningi þessara gagna, lét í ljós þá eindregnu skoðun að Síminn mundi vegna tímapressunnar ekki vera tilbúinn með gögnin í tíma. Jafnframt taldi hann að þau gögn væru ekki líkleg til þess að vera af þeim gæðum sem æskilegt væri til að fyrirtækin tvö gætu unnið sína vinnu.

Þetta sýnir flumbruganginn og pressuna á þessu, herra forseti. Þessi vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar og þetta staðfestir það sem við þingmenn höfum sagt um að ríkisstjórnin gefur sér ekki þann tíma sem þarf í þetta flókna verkefni.