Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 10:55:07 (7089)

2001-05-02 10:55:07# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[10:55]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fagna sérstaklega frv. sem við erum að ræða í dag. Ég held að það hafi komið fram í ræðu hæstv. samgrh. hversu vel þetta mál er undirbúið. Það er að mínu mati afar vel rökstutt að hraða þurfi sölu á Landssímanum.

Mig langar hins vegar til að spyrja hæstv. samgrh. tveggja spurninga. Annars vegar varðandi kjölfestufjárfestana en að mínu mati er mikilvægt að við reynum að tryggja aðkomu erlendra kjölfestufjárfesta. Mig langar að spyrja hæstv. samgrh. um hvað það sé í frv. sem laðar að þessa erlendu fjárfesta.

Síðan vildi ég spyrja út í þriðju kynslóðina. Eins og hæstv. samgrh. veit erum við ekki á einu máli um hvernig eigi að úthluta leyfunum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvenær af úthlutun leyfa vegna þriðju kynslóðar símanna verði.