Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 11:00:33 (7094)

2001-05-02 11:00:33# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[11:00]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Kristján L. Möller hafi áttað sig á því að ég talaði á þeim fundi sem hluthafi þessa fyrirtækis. Ég lít svo á að ég hafi þar fyrst og fremst verið að vekja athygli og leggja áherslu á að það væri skynsamlegt fyrir Landssímann og þá væntanlega skynsamlegt fyrir eiganda Landssímans að bæta þjónustuna úti um allt land og gera það þannig að umferðin yrði aukin um kerfi Landssímans með því að verðið yrði lækkað. Gagnaflutningaþjónustan var lækkuð niður í einn tíunda af því sem hún áður var þannig að þarna var verið að taka mikilvægar ákvarðanir.

En það er alveg ljóst að Síminn er kominn í samkeppni þannig að það þarf hvorki þingmenn í framtíðinni, held ég og er viss um það, né ráðherra til þess að gefa tilskipanir um þetta. Það verður samkeppni á þessum markaði og öll þróunin í fjarskiptatækninni er slík að það er engin trygging fólgin í því að ríkisrekstur eigi að bjarga því sem á að bjarga úti um landið.