Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 11:03:15 (7096)

2001-05-02 11:03:15# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[11:03]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þm. veit eru gagnaflutningar upp í tveggja megabæta afkastagetu á sama verði innan allra svæða á landinu, eins og ég gerði grein fyrir í ræðu minni áðan.

Hins vegar þarf að átta sig á því að við erum náttúrlega komin í mjög breytt umhverfi. Fjarskiptalögin og samkeppnislög takmarka mjög inngrip stjórnmálamanna. Ég tala nú ekki um ef stjórnmálamenn ætla að fara að breyta ríkisfyrirtækjum sem eru á samkeppnismarkaði með tilfærslum þá er það ekki auðvelt verk. Hv. þingmenn og þar á meðal hv. þm. Kristján L. Möller verða að vita þetta og ef Samfylkingin hefur ekki upplýst þingmenn sína um að við lifum í nýju umhverfi þá er alveg nauðsynlegt að þingmenn átti sig á því einmitt núna þegar fram undan er samkeppni á fjarskiptamarkaði. Og ég vænti þess að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson geti tekið undir það með mér.