Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 11:09:29 (7101)

2001-05-02 11:09:29# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[11:09]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. samgrh. fyrir prýðilega ræðu að mörgu leyti sem var efnisrík og skýrði í nokkuð snörpu máli öll hans viðhorf til þessa máls. Ég verð hins vegar að hryggja hann með því að ég er honum ósammála um margt, einkum að því er varðar þróun fjarskiptamarkaðarins og samkeppni á honum á næstu árum og ég er honum auðvitað allsendis ósammála um tímasetninguna og það hvernig hæstv. ráðherra talar um markaðinn í heild og breidd.

Ég verð hins vegar að segja að ég er dálítið hrifinn af þeirri snöfurlegu dómgreind sem birtist í því hjá hæstv. ráðherra að hann harðneitar því að menn séu hér með eitthvert óðagot eða flumbrugang þegar það liggur fyrir að það hefur tekið eitt og hálft ár að taka þessa ákvörðun. Síðan ætla menn að ráðast í framkvæmdina á sex vikum, gefa þinginu sex daga til þess að fara í þetta mál sem hæstv. ráðherra talar um að sé ákaflega flókið, yfirgripsmikið og stórtækt. Ég er honum sammála um það. En ef hæstv. ráðherra hefur snefil af virðingu fyrir sinni eigin dómgreind ætti hann ekki að taka svona til máls jafnvel þó að hann standi hér í höggorrustum við hv. þm. Vinstri grænna.

Ég vil áður, en ég ræði vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli og það sjálft í smáatriðum, lýsa í stuttu máli afstöðu okkar í Samfylkingunni til frv. Hún hefur reyndar komið fram oft áður, fyrst í þingskjali sem lagt var fram þegar árið 1997. Þá strax lögðu ákaflega margir þingmenn Samfylkingarinnar til að Landssímanum yrði skipt í tvö fyrirtæki. Við erum þeirrar skoðunar almennt að það fari vel á því að flytja samkeppnisrekstur úr höndum ríkisins yfir á markað og við leggjumst ekki gegn því að samkeppnisrekstur Símans verði seldur. Raunar teljum við að fremur hefði átt að selja hann áður en að ríkið varð eins konar ryksuga á markaðnum sem hefur á síðustu árum varið 2--3 milljörðum í gegnum Landssímann til þess að kaupa upp 35 önnur fyrirtæki á þessum markaði. Það er auðvitað óhæfa. Það er ekkert annað en ríkisvæðing. Menn hefðu frekar átt að selja samkeppnisreksturinn en að hafa í frammi ríkisvæðingu af þeim toga.

Við höfum hins vegar jafnan lagst alfarið gegn því að dreifikerfið verði selt vegna þess að við teljum að það veiti hinu einkavædda fyrirtæki yfirburðastöðu í krafti lögverndaðrar einokunar sem við getum alls ekki fellt okkur við. Við teljum líka að sala á dreifikerfinu komi í veg fyrir að uppbygging þess kerfis á landsbyggðinni verði með svipuðu sniði og í þéttbýlinu. Þar af leiðir erum við þeirrar skoðunar að þetta fyrirkomulag skerði stórlega möguleika landsbyggðarinnar til þess að þróa þekkingariðnað sinn með svipuðu móti og gerist hér í þéttbýlinu. Ályktunin sem við drögum af því, herra forseti, er sú að í reynd sé verið að dæma landsbyggðina úr leik hvað varðar þróun þekkingariðnaðar í framtíðinni.

Við höfum lengi vel ekki siglt einskipa í þessu máli, herra forseti. Hv. þm. Framsfl. hafa, ef eitthvað er, tekið dýpra í árinni og hér gæti ég varið löngum stundum til þess að lesa úr ,,samlede værker`` hv. þm. Hjálmars Árnasonar sem hefur með ákaflega hugvitssamlegum og elegant hætti fært bestu rökin fyrir þessu viðhorfi hér og ég bíð auðvitað eftir því í nokkru ofvæni að heyra hv. þm. Hjálmar Árnason skýra það á eftir hvers vegna hann hefur skipt um skoðun.

Herra forseti. Við teljum jafnframt að það þurfi að skoða ákaflega vel tímasetninguna á sölunni. Það er alveg ljóst að þessi sala er ákveðin án þess að nokkurt mat liggi fyrir á stöðu markaðarins, án þess að nokkurt mat liggi fyrir á því hvaða áhrif salan gæti haft á hlutabréfamarkaðinn í heild. Hæstv. samgrh. hefði nú haft gott af því að sitja með okkur í efh.- og viðskn. um daginn þegar við vorum þar að véla um sölu bankanna. Þar kom fram hjá hverjum sérfræðingnum á fætur öðrum að það væri mögulegt að sala þessara stóru ríkisfyrirtækja mundi kalla fram það sem einn sérfræðingur Landsbankans kallaði ,,sjokkeffekt`` á hlutabréfamarkaði. Virðulegi forseti. Ég verð að leiðrétta sjálfan mig. Það var ekki sérfræðingur Landsbankans heldur fulltrúi Samtaka fjárfesta sem sagði þetta.

Vegna þess að hæstv. ráðherra kemur hérna eins og véfréttin í Delfí og bregður sér í gervi þess manns sem 120 þúsund Íslendingar vildu gjarnan eiga orðastað við í einrúmi og lýsir því yfir að þess sé að vænta að hlutabréfamarkaðurinn nái aftur þeim hæðum sem hann féll úr fyrir skömmu þá spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað í ósköpunum kemur honum til þess að segja þetta? (Gripið fram í.) Það er ekkert sem bendir til þess, herra forseti. (Gripið fram í.) Og þegar við spurðum einmitt aðra galdramenn úr fjármálastofnunum á vegum ríkisins hvaða merki og teikn þeir sæju á lofti um að það yrði einhvers konar viðsnúningur sem gerði það að verkum að það væri hægt fyrir markaðinn að taka við þessu mikla magni hlutafjár þá sögðu þeir, m.a. sérfræðingar Landsbankans, að þeir sæju engin teikn á lofti um að hlutabréfamarkaðurinn væri að snúast við.

Ég vísa því öllu sem hæstv. ráðherra sagði um þetta efni til föðurhúsanna og það sýnir hvað hann er óviss og óstöðugur og reikull í sinni sök í þessu máli að hann talar hérna eins og barn um fjármál. Hann segir, herra forseti, að hann ætli sér að selja eftir stöðunni á markaði.

[11:15]

Hann væntir þess að hlutabréfamarkaðurinn nái aftur þeim hæðum sem hann náði áður en hann féll en hann segir samt að hann ætli sér að fara eftir tilteknum tímasetningum sem eru þannig að í næsta mánuði á að fara að selja hluta úr bankanum. Ég tók að vísu eftir því að hæstv. ráðherra virðist horfinn frá þeim áformum sem gefin eru upp um tímasetningu sölunnar vegna þess að fyrst ætti að selja 14% til almennings og síðan ætti að selja einhvern tíma seinna 10% með opinni útboðssölu. Í frv. segir hins vegar að þetta eigi að gera samhliða. En ég skil það svo að hæstv. samgrh. sé orðinn hræddur við markaðinn.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom hér og átti að hluta til kollgátuna á því af hverju menn leita svona fast eftir því að koma Símanum á markað. Það er auðvitað þannig að það er að sannast þessa dagana það sem stjórnarandstaðan hefur sagt að viðskiptahallinn er að leiða til þess að kominn er gríðarlegur þrýstingur á gengið, segja má að lítil tímasprengja sem um nokkra hríð hefur tifað í hagkerfinu hafi sprungið og gengið farið til þess sem býr í neðra. Til þess að styrkja almenna stöðu efnahagsmála er greinilega verið að reyna að selja fyrirtæki úr landi. En það er ekki bara það, herra forseti. Það er einfaldlega þannig að vildarvinir Sjálfstfl. bíða í röðum eftir því að fá að kaupa í Símanum, eftir því einmitt að komast í þessa opnu tilboðssölu, og hvenær er betra fyrir þá að komast í sjóðina, komast í handraðann en einmitt núna þegar verðið er svona lágt?

Herra forseti. Það segir, af því að hér gengur klerkur í salinn, í helgri bók: ,,Það sem þú gjörir, það gjör þú skjótt``, og fyrst hæstv. ráðherra ætlaði sér á annað borð að selja þetta, átti hann auðvitað að gera það í fyrra. Hann átti að gera það fyrir tveim, þremur missirum. Þá hefði komið miklu meira í kassa ríkisins. Herra forseti. Ég fullyrði að seinagangur ríkisstjórnarinnar til að komast að niðurstöðu hafi verðfellt Landssímann um tugi milljarða. Í fyrra var hann metinn á 40--60 milljarða. Í blaði allra landsmanna, Morgunblaðinu, sá ég hins vegar talsvert hærri tölu en ég fullyrði að það sem fæst fyrir Símann verður miklu minna en þá verður líka miklu auðveldara fyrir ýmsa einkavini Sjálfstfl. að verða sér út um dágóðan hlut í Símanum. Þegar hann rýkur síðan upp, eins og hæstv. samgrh. segir að innan skamms muni markaðurinn aftur ná hæðum sínum, þýðir það einfaldlega að einkavinir Sjálfstfl. sem komast á jötuna muni sennilega tvöfalda hlut sinn og græða milljarða. Það kynni að vera að hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni hafi skjöplast þetta. Þetta er ein af þeim ástæðum sem þessir herrar eru að horfa til þegar þeir beita sér fyrir þessu.

Herra forseti. Ég vil í nokkrum orðum fara yfir þær röksemdir sem liggja afstöðu Samfylkingarinnar til grundvallar, þ.e. hvað varðar það að við viljum skilja dreifikerfið frá samkeppnisrekstrinum. Það er í fyrsta lagi vegna þess að það er forsenda þess að landsbyggðin eigi kost á gagnaflutningum um síma og ljósleiðara á sömu gæðum og svipuðu verði og þéttbýlið. Ef dreifikerfið er einkavætt, þá er sá möguleiki einfaldlega úti og það þýðir einfaldlega að landsbyggðin verður afskipt, hún verður annars flokks í þekkingariðnaði framtíðarinnar sem er að kveðja dyra nánast sem við tölum þessi orð. Fari svo þá mun landsbyggðin, sem Framsfl. hefur verið svo umhugað um, óhjákvæmilega tapa í samkeppninni við þéttbýlið um fólkið og ég tel að hún muni dæmast til þess á einni til tveimur kynslóðum, e.t.v. skemmri tíma, að breytast í það að verða að fámennum verstöðvum sem hafi það hlutverk eitt að taka á móti túristum og afla hráefnis. Það er ekki það sem við viljum að verði hlutskipti landsbyggðarinnar.

Í öðru lagi teljum við líka að dreifikerfið þurfi að aðgreina frá öðrum rekstri Landssímans til þess að tryggja samkeppni á markaðnum sem Landssíminn starfar á. Rökin sem hæstv. samgrh. flutti áðan voru verstu rök sem ég hef heyrt gegn þessu. Ég gæti komið upp og tínt ýmis rök sem mæla gegn því sem við erum að velta fyrir okkur en ekki það sem hæstv. ráðherra sagði áðan.

Herra forseti. Við erum ekkert ein í þessu. Það vill svo til að á vegum Framsfl. og ráðuneyta hans starfaði sérstök nefnd sem fjallaði um ytri skilyrði hugbúnaðarins hér á landi og menn geta farið á heimasíðu iðnrn., sem ég hvet hæstv. samgrh. til að gera, og lesið skýrsluna sem liggur þar fyrir og hvað segir í skýrslunni? Þar segir að hinn raunverulega samkeppnisrekstur eigi að selja við fyrsta tækifæri. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Aftur á móti ætti að fara hægar í að einkavæða rekstur grunnkerfisins, mikilvægara er að halda áfram og ljúka uppbyggingu þess.``

Síðan kemur bein tillaga sem liggur á heimasíðu hæstv. iðnrh.- og viðskrh., byggðamálaráðherrans. Hún hljóðar svo:

,,Landssímanum hf. verði skipt í tvö sjálfstæð fyrirtæki. Annars vegar fyrirtæki sem á og rekur grunnkerfið, þ.e. dreifikerfið ásamt nauðsynlegum búnaði, og hins vegar fyrirtæki sem annast almenna síma- og fjarskiptaþjónustu.``

Herra forseti. Stefna Samfylkingarinnar sem hæstv. samgrh. eyddi helft ræðu sinnar til að mæla gegn er að finna á heimasíðu ríkisstjórnarinnar sem kostaði að vísu 70 millj. að koma á laggir. (Gripið fram í.) Hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri gjörir. Hæstv. samgrh. veit ekki afstöðu hæstv. byggðamálaráðherra. Hv. þm. Hjálmar Árnason sem snýst eins og skopparakringla í þessu máli snýst svo ört að hann veit ekki einu sinni og hefur ekki tóm til þess að skilja hver er stefna byggðamálaráðherrans. Herra forseti. Af þessum verkum dæma menn sig sjálfir.

Mig langar líka, af því að hér eru enn nokkrir þingmenn Framsfl., að lesa megináherslur hæstv. iðn.- og viðskrh. fyrir árin 2001--2003 sem er einmitt að finna á heimasíðunni sem hæstv. samgrh. hefur ekki gefið sér tóm til að lesa. Þar segir:

,,Upplýsinga- og fjarskiptatækni mun gegna veigamiklu hlutverki fyrir þróun búsetu á landsbyggðinni. Hún mun bæði bera uppi nýja atvinnustarfsemi og vera veigamikill þáttur í því að jafna aðstöðu og lífskjör landsmanna.``

Herra forseti. Auðvitað er alveg ljóst ef verðlag er ekki hið sama og ef þjónustan er ekki hin sama fellur þetta um sjálft sig þannig að hæstv. ráðherra verður að skýra með rökum fyrir okkur að verðlagið verði hið sama, að þjónustan verði hin sama. Hann hefur teflt fram tvenns konar rökum í ágætri ræðu sinni. Í fyrsta lagi segir hann að hann sé búinn að tryggja það að eftir sölu muni Landssíminn sjá til þess að landsbyggðin búi við viðunandi þjónustustig hvað varðar gagnaflutninga, og höfum það hugfast að þeir eru í dag helmingurinn af umferðinni í kerfinu og, hann sagði sjálfur, munu aukast hlutfallslega mikið á næstu árum. En hann segir að landsbyggðin búi við viðunandi þjónustustig og verð á gagnaflutningum hafi lækkað mjög verulega.

Herra forseti. Það kemur fram í frv. og ræðu hæstv. ráðherra að Landssíminn verði að uppfylla ákveðna kvöð um alþjónustu sem á að tryggja vissa lágmarksþjónustu til allra landsmanna. Þessi kvöð er þannig skilgreind að varðandi gagnaflutninga á hún að svara til þess að hægt sé að flytja sem svarar 128 kílóbit á sekúndu. Þetta er alger lágmarksþjónusta sem er ekki enn búið að koma á fót. En í skýrslu einkavæðingarnefndar, neðst á bls. 53, er hins vegar verið að segja frá möguleikunum, bara innanbæjarlína í þéttbýlinu. Þar kemur fram að innanbæjarlínur geti flutt 2.048 kílóbit á sekúndu. Með öðrum orðum það sem hæstv. ráðherra er að kasta eins og molum til landsbyggðarinnar, til strjálasta dreifbýlisins er 1/16 af því sem hægt er að flytja með innanbæjarlínum.

Þar fyrir utan, herra forseti, þróast þessi tækni svo ört að kröfurnar sem menn gera í dag verða fallnar í kvöld og verða allt aðrar á morgun. Við skulum bara horfa til þróunarinnar síðustu sex ár.

Fyrir sex árum var mesti samskiptahraði á símalínum um lengri og styttri vegalengd 14,5 kílóbit á sekúndu. Núna er hann 128 eins og ég sagði áðan. Ég tel að innan fáeinna ára, örugglega færri en sex ára, verði flutningsgeta í dreifbýli upp á þetta magn gagnaflutninga álíka álitlegur kostur til að flytja gögn eins og moldarslóði er í dag fyrir almennar samgöngur. Svona þróast tæknin hratt. Með því að einkavæða dreifikerfið er skotið loku fyrir að það sé hægt nema ríkið grípi þá inn í með fjárframlagi að fylgja eftir kröfunum sem framvinda tækninnar setur óhjákvæmilega gagnvart landsbyggðinni.

Hæstv. ráðherra hrósar sér líka af því að hafa samið við einokunarrisann um að veita betri þjónustu en á að koma fram. Hann ætlar að sjá til þess að allt landið eigi kost á því að fá sítengingu en það kemur fram að aðeins 70--80% munu geta það. 20--30% munu ekki geta það og hvaða 20--30% eru það? Það er fólkið sem Framsfl. taldi sig kjörinn til þess að sinna. Það eru hagsmunir dreifðasta strjálbýlisins sem eru þarna bornir fyrir borð. Af hverju, herra forseti? Af hverju? Rökin sem hæstv. ráðherra flutti gegn því að skilja kerfið að voru ákaflega vond. Þau eru felld í hans eigin skýrslu vegna þess að honum láðist að geta helstu rakanna gegn því að skilja dreifikerfið að. Þau er að finna á bls. 84 í greinargerðinni með hans eigin frv. Þar segir að ef dreifikerfið yrði skilið frá samkeppnisrekstrinum yrði það baggi á ríkinu. Hvers vegna, herra forseti? Vegna þess að þá mundum við, þingmenn þjóðarinnar, þá mundi þjóðin sjálf, þeir sem vilja hag dreifbýlisins, óhjákvæmilega krefjast þess að uppbygging dreifikerfinsins á landsbyggðinni fylgdist að hvað varðar uppbygginguna í þéttbýlinu.

Herra forseti. Þegar þingmenn Framsfl. taka undir svona rök veit ég ekki lengur hvað er orðið um minningu Jónasar frá Hriflu, herra forseti, þess manns sem vildi efla samstarf alþýðunnar í bæjunum og alþýðunnar til sveita til þess að bæði gætu náð sama rétti. Herra forseti. Það er baggi, og það eru hv. þm. Framsfl. sem taka undir með frjálshyggjufíklunum í Sjálfstfl. að það sé baggi á ríkið ef það heldur áfram dreifikerfinu og þurfi að byggja það upp með sama hætti og dreifikerfið í þéttbýlinu. Þessi málflutningur dæmir sig sjálfur en hann er svo svakalegur að ef ég væri í sama ham og hæstv. landbrh. fyrr á þessum degi, mundi ég taka stórt upp í mig. Þetta er ekkert annað en hneyksli hvað varðar framkomu við dreifbýlið.

Herra forseti. Aðeins um þá staðhæfingu hæstv. ráðherra að verðlagið hafi þegar lækkað svo mikið að það sé orðið sambærilegt. Tökum t.d. verðlækkun á gagnaflutningum um leigulínur sem átti að vera allnokkur, ég man ekki hver hún var, í september árið 2000. Í hverju fólst hún? 60% verðlækkun til stórneytenda. Hverjir eru þeir? Ég held að það séu fyrst og fremst, kannski ekki einvörðungu, en fyrst og fremst einhverjar bókhaldslega afmarkaðar einingar innan Landssímans, 60% verðlækkun til sjálfs sín. Og fyrir fyrirtæki sem var staðsett ekki mjög víðs fjarri Reykjavík, eins og í Hafnarfirði, var lækkunin 30%. Hver er lækkunin til Ísafjarðar? Til Egilsstaða? 12%. Eruð þið ekki stoltir af ykkur, hv. þm. Framsfl.? Þetta er aldeilis jöfnuður gagnvart landsbygginni.

Herra forseti. Ég hef ekki tíma til að hrekja allt sem forstjóri Landssímans hefur sagt og talið fram sem rök gegn því að hægt sé að hafa verðlagninguna hina sömu. Ég vísa bara til þess hvernig menn hafa þetta í Noregi og Danmörku.

Varðandi síðan aðeins samkeppnisrökin, herra forseti. Nú er það einfaldlega þannig að önnur símafyrirtæki sem þurfa að kaupa aðgang að dreifikerfi Landssímans eiga viðskipti við eina deild þess, fjarskiptasamband Landssímans, sem sér um heildsöluna. Á sama tíma má heita að sömu menn séu líka að semja um aðgang hinna símafyrirtækjanna að dreifikerfinu. Þeir eru virkir í að selja aðgang að internetþjónustu Landssímans eða einhverri annarri þjónustu sem hann er að selja í samkeppni við markaðinn. Það er alltaf sá möguleiki uppi, herra forseti, að markaðsráðandi fyrirtæki, sem í þessu tilviki er Landssíminn, geti fylgst með áætlun keppinautanna í gegnum viðskipti þeirra við fyrirtækið. Þannig gæti það notið góðs af vitneskjunni óafvitandi eða vitandi. Efinn er a.m.k. alltaf fyrir hendi og meðan þetta er svona, er markaðurinn ekki gagnsær. Þess vegna er ekki hægt að fallast á þetta. Við skulum taka dæmi, herra forseti: Ef símafyrirtæki sem er að keppa við Landssíman pantar leigulínu í höfuðborginni þarf það að gefa upp, samkvæmt samningi sem gerður var í desember um aðgang að heimtaugum, nafn og kennitölu notanda 10 dögum áður en línan er komin í gagnið. Þær upplýsingar er auðvitað hægt að misnota í argvítugri samkeppni.

Tökum annað dæmi: Ef keppinautur Landssímans leigir nú gilda línu út á land, t.d. til Akureyrar eða til Vestmannaeyja, tekur upp í þrjá mánuði að afgreiða þessa línu. Það gefur augaleið að á þeim tíma gæti Landssíminn misnotað sér vitneskju sína um áform keppinautarins sem er hægt að lesa út úr pöntun hans á heildsöluviðskiptum og farið í sérstakt átak til að safna áskrifendum á þessum stað í samsvarandi þjónustu. Þetta gæti gerst, herra forseti. En meira máli skiptir þó svar við eftirfarandi spurningu: Hefur það gerst? Ég held að það hafi gerst. Annaðhvort eru tímasetningar hjá Landssímanum ákaflega tilviljanakenndar og það gæti verið um tilviljun að ræða, eða þetta hefur gerst. Efinn er fyrir hendi og við þurfum að útrýma honum, herra forseti. Það er algerlega nauðsynlegt að skilja dreifikerfið frá öðrum rekstri Landssímans og ég mun í seinni ræðu minni í dag flytja miklu sterkari og yfirgripsmeiri rök gegn þeim sem hæstv. ráðherra tefldi á okkur í því efni.