Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 12:09:34 (7114)

2001-05-02 12:09:34# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[12:09]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst leiðinlegt að ekki skuli vera hægt að ræða þessa hluti við samgrh. út frá dæmum, og þó að það sæki í brunn reynslunnar, án þess að ráðherra snúist hér allur við og neiti að viðurkenna staðreyndir. Ég ætlaði þessari umræðu ekkert út í neinn meting um það hvaða ráðherrar á hverjum tíma hefðu lagt þetta eða hitt af mörkum. Ég tók bara dæmi um það hvernig hefði mátt beita þessu fyrirtæki, og hefur verið gert á undanförnu alllöngu árabili, til þess að ná þó þeirri jöfnun sem er til staðar í dag og þar hafa fleiri en einn og fleiri en tveir átt hlut að máli. Mér finnst bara að menn eigi að horfa á þetta eins og það liggur fyrir. Það þarf ekki að rífast um staðreyndir sem eru tiltækar í gögnum.

Hins vegar er í grundvallaratriðum valið milli þeirra leiða sem við erum hér að ræða, að menn tryggi þessa jöfnun þangað til aðstæður hafa skapast til þess að ekki þurfi yfir höfuð að hafa af því neinar áhyggjur, sem e.t.v. gerist einhvern tíma í framtíðinni í krafti tæknibreytinga og gjörbreyttra möguleika til fjarskipta og gagnaflutninga, e.t.v. um gervihnetti eða guð má vita hvað. En það er ekki til staðar í dag. Við erum með gögn í höndunum sem sýna að það er ekki líklegt til að breytast í grundvallaratriðum á næstu árum, einhverjum nokkrum næstu árum, og um það eru flestir helstu tæknisérfræðingar sammála. Út frá þessum aðstæðum finnst mér að við eigum að reyna að ræða þetta. Það tjóir ekki að fara í hnút eins og hæstv. samgrh. hefur gert þegar reynt er að rökræða við hann um t.d. þessa þætti málsins.

Herra forseti. Það liggur algjörlega í augum uppi, a.m.k. í þessu máli --- þó að menn geti sjálfsagt reynt að deila um flest --- að það er algjört óðs manns æði að taka sér ekki mjög góðan tíma í að skoða það vandlega. Þess vegna endurtek ég það að lokum í seinna svari mínu: Það er reginhneyksli að ætla Alþingi að þröngva þessu í gegn á örfáum dögum og það er algjört lágmark að þetta mál fái skoðun í sumar, þess vegna í milliþinganefnd, sem ég er viss um að góð samstaða gæti orðið um að skipa, og að menn taki þá aftur til við það næsta haust.