Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 12:36:44 (7119)

2001-05-02 12:36:44# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[12:36]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Það sem hefur gerst frá því að fjarskiptalögin voru sett er að samkeppnisaðilar á fjarskiptamarkaði á Íslandi hafa lagað sig að þeim lögum. Þeir hafa beygt sig undir þau lög og efni þeirra laga, m.a. það vald sem hæstv. ráðherra, samgrh. hverju sinni, hefur til að setja ákveðin skilyrði í starfsleyfið. Það er nákvæmlega það sem hefur gerst að samkeppnisfyrirtækin hafa lagað sig að þessum lögum. Sá þáttur, sem er í rauninni til umræðu og er forsenda fyrir hugsanlegu Microsoft-ástandi, er að einn aðili einoki dreifinguna. Sú staða er ekki til staðar í dag vegna þess að þessi samkeppnisfyrirtæki hafa reynslu af því, eins og dæmið sem ég tók um Tal hf. hér áðan, að þau komast einfaldlega inn á þetta net.

Síðan vil ég vekja athygli á því að samkeppnislög voru styrkt hér og um það er rætt að fjölga starfsfólki hjá Samkeppnisstofnun, m.a. sérfræðingum á sviði fjarskiptasviðsins, svo þeir geti fylgst með þessu samkeppnisumhverfi.