Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 12:40:42 (7122)

2001-05-02 12:40:42# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[12:40]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vel að hv. þm. Hjálmari Árnasyni svíði nokkuð sárt að hér sé með beinum tilvitnunum í orð hans sjálfs á Alþingi í ræðum eða í blaðagreinum sýnt fram á þann algera viðsnúning sem þarna hefur farið fram hjá Framsfl. sem var langt fram eftir síðasta ári og fram undir síðustu mánuði andvígur því að einkavæða Landssímann með grunnnetinu en sneri síðan við blaðinu, eða gafst öllu heldur upp í málinu. Þær staðreyndir liggja á borðinu.

Ég hefði talið að Framsfl. hefði komið skár út úr því, það er bara mat mitt, að viðurkenna að hann hafi gefist upp en að setja á þau óskaplegu leikrit sem hér er reynt að færa fram og málsvörn af því tagi að allt í einu hafi Framsfl. uppgötvað fjarskiptalögin, og/eða hitt að pólitík Framsfl. stjórnist af tækniframförum og hann skipti um skoðun þegar einhver ný uppgötvun kemur fram í dagsljósið á tæknisviðinu. Þá hverfur Framsfl. frá hefðbundinni stefnu sinni, t.d. því að það geti verið háskalegt fyrir landsbyggðina að einkavæða almenningsþjónustu fyrirtækja af tagi Landssímans.