Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 12:48:25 (7128)

2001-05-02 12:48:25# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., ÖS (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[12:48]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þær sakir sem ég æski að fá að bera af mér eru tvenns konar.

Hv. þm. sagði undir lok ræðu sinnar að ég hefði vikið með skútyrðum að hæstv. samgrh. í morgun. Má ég rifja upp hvernig ég hóf ræðu mína. Ég hrósaði hæstv. samgrh. fyrir efnismikla, prýðilega ræðu, sem hefði skýrt viðhorf hans mjög vel. Ég tók hins vegar fram að ég væri ósammála á sumu í máli hans og tilteknum athugasemdum hans væri ég algjörlega ósammála.

Þannig að það er einfaldlega rangt sem hv. þm., í þessu taugalosti sem svífur á hann í þeirri orrahríð sem hann kallar sjálfur yfir sig, heldur fram varðandi það sem ég sagði um hæstv. samgrh. Ræða hans, eins og ég sagði, var þvert á móti alveg prýðileg og efnisrík. Ég notaði þessi orð.

Síðan segir hæstv. ráðherra ... hv. þm. á ég við --- ég vona samt að hann verði ráðherra einhvern tímann, allir eiga skilið einhverja uppreisn, sérstaklega eftir svona dag --- en hv. þm. sagði að ég hefði engum orðum eytt að því að það ríkti fákeppni á markaðnum. Herra forseti. Talsvert drjúgur hluti ræðu minnar hér í morgun fjallaði einmitt um það. Ég nefndi sérstaklega tvö dæmi um það, herra forseti.

(Forseti (GuðjG): Nú þykir forseta hv. þm. vera kominn út fyrir efnið, að bera af sér sakir. Nú er hann kominn í efnislega umræðu og andsvar við hv. þm. og það gengur ekki. )

Ég er að gera það, herra forseti.

(Forseti (GuðjG): Það eru margir hv. þingmenn sem bíða eftir að fá að veita andsvar og komast ekki að. Ef hv. þm. telur sig þurfa að bera af sér sakir þá skal hann gera það en ekki fara út í efnislega umræðu.)

Ég tek þessar athugasemdir hæstv. forseta alvarlega og skal ekki lengja mál mitt. Ég var hér að bera af mér þá sök að ég hefði ekki í ræðu minni reifað það að ég teldi ríkja fákeppni á markaðnum. Ég gerði það, herra forseti, og það eru þær sakir sem ég er að bera af mér. Ég tiltók tvö dæmi og ef forseti æskir, þá get ég rakið þau aftur til þess að fríska upp á minni hans. En ég ætla ekki að gera það.

(Forseti (GuðjG): Forseti þakkar hv. þm. gott boð og ekki síður fyrir að ljúka máli sínu.)