Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 13:31:19 (7133)

2001-05-02 13:31:19# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[13:31]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frv. sem ríkisstjórnin hefur lagt fyrir hið háa Alþingi og óskar eftir heimild þess til að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Landssíma Íslands hf.

Í umræðunni í morgun fannst mér farast fyrir að halda nákvæmlega þeirri staðreynd til haga, að það er verið að leita eftir heimild Alþingis til að selja allt hlutafé í Landssíma Íslands. Þó að áætlanir kveði á um að gera það með ákveðnum hætti þá er Alþingi ekki að binda ríkisstjórnina á neinn hátt til að fylgja þeim áætlunum. Menn verða að halda því til haga í þessari umræðu að hér er einungis farið fram á heimild Alþingis til þess að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Landssíma Íslands.

Öllum sem þekkja til þessa máls má vera ljóst að mikil verðmæti eru falin í Landssíma Íslands, sem betur fer. Hér er óskað eftir að fá að selja þau verðmæti. Þegar slíkar óskir eru bornar upp á hinu háa Alþingi er eðlilegt að menn velti því fyrir sér, eins og menn hafa reynt að gera í morgun: Á starfsemi eins og sú sem Landssími Íslands rekur að vera í höndum einkaaðila eða í höndum ríkisins?

Sá sem hér stendur er þeirrar skoðunar að eftir að opnað var á samkeppnisrekstur á þessu sviði sé óþarft og að mörgu leyti fráleitt, að mörgu leyti ekki á neinn hátt í samræmi við hagsmuni ríkisvaldsins, að reka fyrirtæki í beinni samkeppni. Sagan kennir okkur að oftar en ekki hafa fyrirtæki í eigu ríkisins á þessu sviði farið halloka. Einnig gæti farið svo að þau miklu verðmæti sem nú eru í Landssímanum mundu að einhverju leyti brenna upp, yrði sá þáttur rekstrarins sem nú er á samkeppnissviði áfram í eigu ríkisvaldsins.

Við í Samfylkingunni höfum því sett fram þá skoðun og erum um hana einhuga, að selja eigi þá starfsemi sem er á samkeppnissviði. En um leið höfum við sagt að varhugavert sé að selja það sem ekki er á samkeppnissviði. Því höfum við lagt til að grunnnetið verði undanskilið.

Af hverju leggjum við til að grunnnetið verði undanskilið? Fyrst og fremst gerum við það vegna þess að þar sem er fákeppni og einokun er mjög varhugavert að hafa hana í höndum einkaaðila. Sagan kennir okkur líka að einkarekin einokun er að mörgu leyti verri en ríkisrekin einokun. Þar búa önnur sjónarmið og aðrir hvatar að baki en í ríkisrekstri. Í þessari umræðu er fráleitt, virðulegi forseti, að halda því fram að einhver samkeppni sé þar sem grunnnetið er.

Vissulega eru uppi áform um lagningu ljósleiðara og þeir hafa verið lagðir hér og þar. Þannig má segja að á heildsölustiginu, ef svo má að orði komast, sé samkeppni hugsanleg á einhverjum tilteknum afmörkuðum svæðum, til að mynda hér í Reykjavík. Á Suðurlandi hefur verið lagður ljósleiðari og út í Vestmannaeyjar. Í greinargerð frv. og í skýrslu nefndar kemur fram að uppi séu hugmyndir um að leggja slíkan streng til Akureyrar.

Þetta breytir bara engu, virðulegi forseti. Almenningur ætti að njóta góðs og einhvers hagnaðar af þessari samkeppni, þ.e. í bættri þjónustu og lægra verði. Hins vegar er allur almenningur tengdur í svokölluðu heimtaugakerfi. Það er engin samkeppni í að veita almenningi þá þjónustu. Allir sem ætla að veita almenningi þjónustu þurfa að fara í gegnum kerfi Landssímans. Það er einfaldlega kjarni þessa máls. Allir sem ætla að ná til almennings þurfa að ná samningum við Landssíma Íslands. Það er hinn harði veruleiki.

Að einhverju leyti mætti líkja þessu við að tiltekin verslun hefði einkarétt eða einkaleyfi til að selja einhverja vöru og menn gætu ekki selt almenningi vöruna nema fara á færibönd viðkomandi verslunar. Það sjá allir í hendi sér að þetta er fráleitt. Í ræðu eins hv. þm. í morgun var því meira að segja haldið fram að það væri engin fákeppni á þessu sviði. Hæstv. ráðherra sagði þó í ræðu í morgun, sem að mörgu leyti var ágæt, að þetta tiltekna fyrirtæki væri með um 85% af allri veltu á þessum markaði. Það þýðir að hún hafi lækkað um 10% á einu ári eða svo, miðað við þær upplýsingar sem við fengum í fyrra. Ekki ætla ég að rengja þær tölur en 85% hlutdeild af tilteknum markaði er langt yfir þeim mörkum þegar verið er að tala um fákeppni og einokun. Það er vitaskuld fráleitt að beita þeirri röksemdafærslu að það sé í lagi að selja þetta í einu lagi af því að það sé engin fákeppni. Það er langt frá því að vera í samræmi við raunveruleikann.

Við stöndum frammi fyrir því að með sölu fyrirtækis sem hefur jafnóheyrilega sterka stöðu erum við um leið að ákveða hvernig við ætlum að haga markaðnum til frambúðar. Í hvaða umhverfi ætlum við að láta þessa grein þróast? Það sem skiptir öllu í þessu er hvernig við ætlum að láta hana þróast.

Miðað við þær hugmyndir sem hér eru uppi þá er öll nálgun við almenning í gegnum þessar taugar, í gegnum svokallaðar heimtaugar, sem eru algerlega í eigu Landssímans. Það er ekki raunhæft að önnur fyrirtæki sem ætla að hasla sér völl á þessum markaði fari að grafa skurði til að komast í öll hús. Í þeirri stöðu sem nú er uppi er fráleitt að ímynda sér að sá möguleiki sé raunhæfur. Þess vegna er sú staða uppi að fyrirtækið, sem hér er verið að óska heimildar Alþingis til að selja, hefur einokunaraðgang að öllum heimilum í landinu. Hugsanlega er einhvers staðar búið að leggja einhverja ljósleiðara en það er svo lítið að það tekur því vart að nefna það.

Þá spyrja menn: En er þá eitthvað annað á leiðinni? Getur þá eitthvað annað leyst þessa tækni af, til að mynda að fara um loftið? Í dag er ekkert sem bendir til þess. Það er ekki hægt að leggja upp í þessa ferð á þeirri forsendu að einhvern tímann, í óvissri framtíð komi upp sú staða, með þessar einkalínur til alls almennings í landinu, að hægt verði að tala um það í alvöru að samkeppni verði á þessu sviði. Þar fyrir utan hafa menn bent á að með aukinni tækni í endabúnaði geti líftími þessa kopars, þ.e. úr götu og inn í hús, orðið um 10--20 ár í viðbót, með svokallaðri ADSL-tækni og annars konar tækni sem fundin hefur verið upp til að nýta þennan kopar betur og lengur. Það breytir þó ekki hinu, að sá sem kaupir hlutaféð, ráðandi hlut í Landssímanum, hefur einkaaðgang að hverju einasta heimili í landinu. Það er staðreynd sem við komust ekki fram hjá. Allir sem ætla að veita notendaþjónustu þurfa að ná samningum við þetta tiltekna fyrirtæki. Það er þessi markaðsgerð sem við munum viðhalda ef fyrirtækið verður selt í einu lagi.

Ég held, virðulegi forseti, að það gæti reynst okkur afdrifaríkt í þeirri öru þróun sem nú á sér stað á sviði hugbúnaðargerðar, að í hvert skipti sem menn hafa þróað nýja þjónustu að veita almenningi þá sé eina leiðin í gegnum Landssíma Íslands. Það sama fyrirtæki hefur líka fest sig í sessi á öðrum sviðum. Í umræðum í morgun kom fram að það hefur reyndar átt sér stað einvers konar ríkisvæðing á þessum markaði. Landssími Íslands hefur verið að kaupa upp tugi annarra fyrirtækja á þessum markaði, þ.e. einkafyrirtæki sem hafa verið stofnuð hafa verið keypt upp af ríkinu. Þau hafa verið keypt upp í þeim skilningi að hlutaféð hefur verið keypt eða ráðandi hlutur. Menn hafa a.m.k. tryggt sér stjórnarsetu í þeim tilvikum. Því má segja að Landssíminn hafi keypt sig til verulegra áhrifa í mjög mörgum fyrirtækjum á þessu sviði. Þess vegna er Landssími Íslands ekkert bundinn við það eitt að reka þessi grunnnet eða talsímaþjónustu. Hann er í miklu fjölbreytilegri rekstri.

Þegar fyrirtæki í svo fjölbreytilegum rekstri hefur þessa stöðu þá hlýtur það að hugsa um sinn hag þegar það veitir öðrum aðgang að kerfi sínu. Sennilega vita allir í þessum sal að það var þrautin þyngri að ná samningum við þetta fyrirtæki þegar fleiri fyrirtæki þurftu að komast inn á netið. Þess vegna undrast ég mjög að menn séu ekki tilbúnir að ræða málið af meiri ábyrgð og festu en gert hefur verið í morgun. Það hefur komið fram að það er tæknilega mögulegt að gera þetta. Í því ljósi og þeirrar umræðu allrar er vert að rifja upp og nefna sérstaklega að það er rétt rúmur mánuður síðan gerður var einhvers konar samningur milli ríkisins og Símans, þar sem þeim átta þráðum í ljósleiðurunum sem liggja um allt landið var skipt upp. Það þótti ekkert tiltökumál. Þar af fær Síminn fimm þræði og ríkið þrjá, sem á þá að nota í tengslum við veru varnarliðsins hér á landi. Það þarf því ekki að fara um það mörgum orðum að það er tæknilega mögulegt og skynsamlegt fyrir þessa atvinnugrein að skipta þessu upp. Það er skynsamlegt fyrir þróunina á þessu sviði að skipta þessu upp. Ef sagan hefur kennt okkur eitthvað þá hefur hún kennt okkur að mjög fátt þrífst og dafnar í skugga einokunarfyrirtækja.

Virðulegi forseti. Menn hafa talað um það við þessa umræðu að leiðin til að forðast hættuna sé aukin ,,löggæsla``, þ.e. að leiðin fram hjá misnotkun á einokunarstöðu sé sú að efla Samkeppnisstofnun og efla Póst- og fjarskiptastofnun. Ég ætla að lýsa því yfir að mér finnst það góðra gjalda vert. En það breytir ekki hinu, að þegar við komum okkur upp markaði af þeirri gerð sem við höfum haft --- það á ekki að breyta honum --- þá grípa svona stofnanir aðeins inn í eftir á. Við erum að búa til þessa hættu en ætlum síðan að láta þessar stofnanir, sem einhvers konar löggæslu á þessu sviði, tryggja það að staðan verði ekki misnotuð.

[13:45]

Ég nefndi það í andsvari áðan af því að títtnefnt Microsoft-ástand kom upp í umræðunni í morgun að það ástand skapaðist þar sem eftirlitsaðili samkeppni og fjarskipta er þar að mörgu leyti miklu þroskaðri og miklu öflugri en hér. Lögin, lagaumhverfið sem þau búa við, á sér miklu sterkari rætur, miklu lengri sögu og miklu öflugra eftirlit en hér er.

Þess vegna hljótum við að spyrja: Af hverju telja menn það mögulegt eða líklegt að það takist hér sem tókst ekki þar með þessum aðferðum? Þetta hlýtur að vera ein grundvallarspurningin í þessari umræðu: Af hverju telja menn að það takist hér sem tókst ekki þar þar sem hefðin og sagan, reynslan, þekkingin og fjármagnið er miklum mun meira á þessu sviði en hjá okkur?

Þá vil ég einnig nefna, virðulegi forseti, að hv. þm. hafa nefnt það sérstaklega að annar stjórnarflokkurinn hafi fallist á þessa leið gegn því að tilteknir þættir væru styrktir. Má í því samhengi nefna einmitt Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun. En ekki hefur verið fjallað neitt frekar um hvernig það verði gert, hvernig því eftirliti verði háttað og hvernig það verði tryggt --- eða reynt að tryggja það því ég er mjög efins um að það sé hægt að tryggja það --- að menn muni ekki misnota sér þá stöðu sem þeir eru augljóslega í.

Við megum ekki gleyma því í þessari umræðu að það erum við hér sem setjum þær almennu leikreglur sem munu skipta mestu í því hvernig gerð þessa markaðar verður og um leið hvernig þróun á hugbúnaðarsviði hér á landi verður til frambúðar. Þess vegna er það mjög alvarleg og getur orðið afdrifarík ákvörðun ef við ákveðum að gera þetta á þann hátt að færa það tiltekna fyrirtæki, sem hefur einokunaraðstöðu í dag, sem er kannski ekkert óeðlilegt því fyrirtækið hefur verið eitt á þessum markaði síðan 1906 eða svo, ef ég man þetta rétt. Í skjóli þeirrar aðstöðu hefur fyrirtækið komið sér upp gríðarlega sterkri stöðu og að sjálfsögðu ber að fagna því. Þess vegna er um að ræða mikil verðmæti og þess vegna skiptir miklu máli hvernig þetta verður gert.

Að undanskildum samkeppnisrökunum hafa menn líka fært fram rökin um hver verði þá þróun eða hverjir verða möguleikar fámennra byggða til að taka þátt í þeirri byltingu eða breytingu eða þróun á fjarskiptamarkaði í þessu ljósi. Það þarf engan snilling til að sjá það að þeir sem kaupa og þeir sem munu ráða þessu fyrirtæki munu reyna að reka það með hagnaði. Það er einfaldlega þannig. Jafnvel þó við setjum í löggjöf einhver ákvæði þess efnis að greiða skuli eitthvert jöfnunargjald til þess að tryggja þessa þjónustu þá mun hún aldrei verða sú sama og sá hvati sem býr að baki þegar menn eru að reyna að ná sér í aðstöðu til að skapa sér hagnað. Menn nálgast þetta á mjög mismunandi hátt. Annars vegar ef það er kvöð á einhverju fyrirtæki að koma upp einhverri þjónustu og hins vegar að menn sjái í því hvata til að koma þjónustu sinni á framfæri til að fá hagnað af henni sem er út af fyrir sig heilbrigt og eðlilegt. En það að ætla að gera þetta með þessum hætti gerir það að verkum að ég óttast mjög að fyrirtæki og fólk á landsbyggðinni muni ekki hafa sömu möguleika og þeir sem búa annars staðar.

Kannski verður alltaf erfitt að samræma þetta eðli málsins samkvæmt, að fyrirtæki starfi frekar þar sem þéttbýlið er. En það breytir ekki hinu að lagaákvæði og kvaðir þess efnis að þurfa að halda uppi tiltekinni þjónustu, sem er kannski lítill sem enginn áhugi á, verður hvorki fugl né fiskur. Ég sé að tíma mínum er senn að ljúka en eins og ég hef farið yfir í máli mínu óttast ég það mjög að ætla að selja grunnnetið sem hefur m.a. yfirburðastöðu að því er varðar ljósleiðarann sem lagður var, að því er varðar þá einokun að hafa aðgang að hverju einasta heimili í landinu. Ég óttast að þetta geri það að verkum að þróun hugbúnaðariðnaðarins hér á landi muni ekki verða jafnör og ella væri og geri það einnig að verkum að þetta ástand muni mismuna mjög byggðum hér í landinu.