Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 13:53:51 (7135)

2001-05-02 13:53:51# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[13:53]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nefndi þessa þræði aðeins sem dæmi um að það er alls ekkert tæknilega ómögulegt eins og lengi var haldið fram í umræðunni að skipta upp grunnnetinu frá annarri þjónustu. Ég tók sem dæmi þegar menn geta meira að segja skipt upp innan grunnnetsins. Þetta var aðeins nefnt sem dæmi.

Ég held að hæstv. ráðherra hafi einmitt hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði: ,,Fyrirtæki hafa lögvarinn rétt til þess að komast inn á heimtaug.`` Það er ekki hægt að bera það saman, virðulegi forseti, að einhver hafi lögvarinn rétt og hins vegar að sá réttur sé eitthvað sem menn þurfa að vinna út frá að því er varðar hagsmuni fyrirtækisins. Það sem ég var að segja áðan er það að fyrirtækið getur haft þá hagsmuni að það hafi af því hagsmuni að hleypa ekki inn nema með afarskilyrðum inn á þessa þræði. Þá hafa menn verulegar tekjur af kopar sem liggur í jörð inn í hvert einasta hús, kopar sem hefur löngu verið afskrifaður, þess vegna eru menn að hafa af þessu verulegar og miklar tekjur, en fyrirtækið hefur ekki endilega hagsmuni af að hleypa inn á þetta. Þetta er nákvæmlega kjarninn í því þegar ég spurði hæstv. ráðherra áðan og kannski er rétt að ég spyrji hann aftur hér og nú: Af hverju telur ríkisstjórnin eða meiri hlutinn á hinu háa Alþingi, því hér hefur a.m.k. enginn af þingmönnum meiri hlutans lagst gegn þessu, að sú leið sem hér er ætlunin að fara, sem felst í því að einhvers konar ,,löggæsla`` tryggi að menn misnoti ekki þessa einokunaraðstöðu þegar mönnum hefur ekki tekist þetta í Bandaríkjunum, með miklu meiri þekkingu, miklu meiri sögulegan bakgrunn og miklu meiri hefð fyrir þessu? Af hverju telja menn að þetta sé hægt hér þegar sýnt er að það var ekki hægt þar?