Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 13:56:08 (7136)

2001-05-02 13:56:08# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[13:56]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. verði að upplýsa betur hvað það er sem var ekki hægt í Bandaríkjunum. Þar er náttúrlega bullandi samkeppni á markaði, við þekkjum það, og stóru risarnir hafa orðið að sæta því að á þeim hafi verið tekið þar. Það er nákvæmlega það sama sem við getum gert á grundvelli okkar fjarskiptalaga. Ef einn aðili er mjög stór á markaðnum þá getur Póst- og fjarskiptastofnun, á grundvelli fjarskiptalaganna, beitt sínum leiðum til þess að skakka leikinn.

Það er alveg ljóst að það er ekki einokunaraðstaða sem Landssímanum hefur verið sköpuð með fjarskiptalögunum, bæði vegna þess að það er réttur annarra fyrirtækja gagnvart markaðsráðandi aðilum að komast inn á heimtaugina og komast inn á netið. Þetta er því atriði sem skiptir mjög miklu máli og þarf að undirstrika alveg sérstaklega.

Hv. þm. sagði að ekki væri tæknilega ómögulegt að aðskilja netið. Það er alveg rétt. Enginn hefur neitað því. En ég hef fært fyrir því rök og undirstrika að það er mjög kostnaðarsamt. Það er mjög óhagkvæmt tæknilega að skilja netið frá símstöðvakerfinu og tölvukerfum símafyrirtækjanna. Þess vegna var það niðurstaða sérfræðinga, sem fóru yfir þetta fyrir hönd einkavæðingarnefndarinnar, að það væri mjög óhagkvæmt og mundi kosta neytendur mjög mikið að fara að búa til nýtt kerfi utan um grunnkerfið til að aðgreina það frá öðrum þáttum Símans. Niðurstaða okkar var því ótvírætt sú að til þess að við byggjum upp hagkvæmt fjarskiptakerfi, hagkvæmt símakerfi, þá er þetta leiðin.