Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 13:58:22 (7137)

2001-05-02 13:58:22# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[13:58]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom nokkuð oft fram í umræðunni í morgun að þegar menn voru að vitna til Bandaríkjanna þá voru menn að vitna í það sem hefur verið kallað hér Micosoft-ástand. Það hefur gengið mjög erfiðlega að bregðast við því. Þess vegna sagði ég: Hvers vegna skyldi okkur takast það hér sem hefur ekki tekist almennilega þar með þessari leið?

En af því að hæstv. ráðherra nefndi að hér væri ekki um að ræða einokun og fjarskiptalögin væru staðfesting þess þá verður að halda því til haga að fjarskiptalögin eru viðbrögð við því ástandi sem hér ríkir, viðbrögð við þeirri einokunaraðstöðu sem eitt tiltekið fyrirtæki er í. Það er nákvæmlega kjarni málsins. Þess vegna þarf að setja sérstaka löggjöf til þess að heimila mönnum að komast inn á heimtaugina. Það er til staðar einokun á þessu sviði. Hins vegar er löggjöfin einhvers konar viðbrögð. Menn mega ekki rugla þessu saman, virðulegi forseti.

Það er það sem ég er að segja. Við eigum ekki að hafa löggjöfina með þessum hætti, heldur eigum við að hafa markaðsgerðina þannig að við þurfum ekki að vera í svona viðbragðalöggjöf. Þess vegna höfum við lagt til að skilja grunnnetið frá. Þá þurfum við ekki að grípa til aðgerða af þessum toga af því að þetta tiltekna fyrirtæki er í miklu víðfeðmari starfsemi en þeirri einni að reka grunnnetið. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég fór ágætlega yfir það í ræðu minni áðan að ekkert fyrirtæki er með línu inn í hvert einasta hús í landinu. Þess vegna hefur ekkert fyrirtæki þá einokunaraðstöðu sem það fyrirtæki hefur sem hæstv. samgrh. óskar nú heimildar fyrir að selja allt hlutaféð í. Þetta eru grundvallaratriði, virðulegi forseti, sem hafa verður í huga í þessari umræðu.