Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 14:25:58 (7142)

2001-05-02 14:25:58# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[14:25]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er makalaust, herra forseti, en því miður ruglar hv. þm. saman staðreyndum og áttar sig ekki á því hvar hann er staddur í veröldinni. Ef hann kallar það afturhald að vera með fæturna á jörðinni en svífa ekki hátt yfir raunveruleikanum þá má það heita hvað sem er.

Varðandi það að Landssíminn hafi ekki staðið sig í stykkinu þá vil ég benda hv. þm. á að símgjöld hér eru, eins og fram hefur komið í umræðunum, með því lægsta sem gerist í samanburði við nágrannalönd okkar, þrátt fyrir mjög erfiðar landfræðilegar aðstæður. Þó hann færi í alla samkeppni í Bretlandi, eins og hv. þm. kom inn á, þá mundi hann ekki finna þar símgjöld sem komast nálægt gjaldskránni okkar, að því er ég best veit. Það er því afar ósanngjarnt að segja að Landssíminn hafi ekki staðið sig hvað þetta varðar.

Mér er til efs um að hv. þv. væri sáttur, herra forseti, ef þetta þróaðist eins og flugið eða eins og blöðin, að það yrði bara samkeppni einhvern ákveðinn tíma og síðan ríkti hér bara eitt fyrirtæki. Hvernig verður þetta þá? Hefur hv. þm. hugleitt það? Eftir að búið er að selja fyrirtækið þá ræður í sjálfu sér enginn ferð.

Þegar við verðum komin inn í eitt fákeppniseinkafyrirtæki, eins og nú stefnir í, verður hv. þm. sáttur við það?