Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 14:33:28 (7146)

2001-05-02 14:33:28# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[14:33]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þm. í röksemdafátækt sinni að sumu leyti hafa snúið út úr máli mínu. Hann vitnaði réttilega í tilskipun Evrópusambandsins sem Póst- og fjarskiptastofnun fór eftir. Ég er sammála því verklagi.

Póst- og fjarskiptastofnun fékk hins vegar til sín útreikninga frá Landssímanum. Þar með voru teknar margafskrifaðar koparlínur sem liggja að hverju heimili. Ef niðurstaðan er að kostnaðurinn við þær eigi að vera 1.111 kr. á mánuði á hvern notanda, þá er ég ósammála því. Landssíminn gat, áður en hann þurfti að selja samkeppnisaðilum aðgang, selt þjónustuna á 500 kr. Hvað gerði það að verkum að kostnaðurinn jókst allt í einu um 600 kr.? Landssíminn er aðeins að nota sér markaðsyfirburði sína til að hækka verðið til að selja samkeppnisaðilum sínum á hærra verði. Af hverju var hægt að selja þjónustuna á 500 kr. áður en þessi tilskipun kom til? Af hverju þarf þetta að kosta 1.111 kr. núna?

Hv. þm. nefndi að Póst- og fjarskiptastofnun ætti að vera eftirlitsaðili, gæta markaðarins og þess að ekki sé okrað á samkeppnisaðilunum. Mismunurinn sem Póst- og fjarskiptastofnunin fékk út úr þessu voru heilar 43 kr. Póst- og fjarskiptastofnun samþykkti 1.068 kr. á meðan Landssíminn vildi fá 1.111 kr.

Ég vek fyrst og fremst athygli á þessu, herra forseti: Landssíminn gat, áður en samkeppnin kom til, haft fastagjaldið til okkar allra á rúmar 500 kr. Eftir að það þurfti að leyfa öðrum fjarskiptafyrirtækjum aðgang að kerfinu þá fór verðið allt í einu upp í rúmar 1.100 kr., hækkaði um vel á annað hundrað prósent í einu vetfangi.

Ég er að tala um þetta og bið um að ekki verði snúið út úr því. Ég er sammála því hvernig þetta er gert en ég er ósammála því, svo að það komi skýrt fram, að Landssíminn leggi gögn sín þannig fram að hann nái að okra á samkeppnisaðilunum.