Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 16:03:25 (7153)

2001-05-02 16:03:25# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., MS
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[16:03]

Magnús Stefánsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf. Þetta mál er margþætt og margslungið og hægt að halda langar ræður um það en ég ætla að leitast við að afmarka mig við nokkra þætti málsins.

Í upphafi held ég að rétt sé að rifja örlítið upp þá þróun sem orðið hefur á þessu sviði þó ekki sé litið lengra aftur en til ársins 1995 þegar Alþingi fjallaði hér um og setti lög um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar. Á þeim tíma hefur Ísland innleitt alþjóðasamþykktir og tilskipanir sem m.a. fólu í sér að 1. jan. 1998 var einkaréttur ríkisins til fjarskipta afnuminn og opnað var fyrir samkeppni í fjarskiptum. Þetta var grundvallarbreyting á starfsumhverfi fjarskipta hér á landi og miðaði fyrst og fremst að því að innleiða samkeppni í þágu neytenda.

Aukinn sveigjanleiki með opinni samkeppni bæði innan lands og á alþjóðlegum vettvangi, tækniþróun og auknar kröfur neytenda kalla á að fjarskiptafyrirtækin geti brugðist við nýjum og síbreytilegum aðstæðum og áherslum á fjarskiptamarkaðnum. Eins og dæmin sýna og við þekkjum er þróun á sviði fjarskipta mjög hröð og hefur margt breyst á því sviði á allra síðustu missirum og árum. Fjarskiptarekstur í samkeppnisumhverfi með þeim lögmálum sem gilda um rekstur og stjórnun slíkra fyrirtækja er til þess fallinn að kalla fram nýjar leiðir og hagkvæmari tæknilausnir, allt í þágu neytenda. Allt þetta tel ég rök fyrir því að opna þurfi eignaraðild að Landssímanum og fjölga eigendum fyrirtækisins.

Eftir að opnað var fyrir samkeppni í fjarskiptum hafa ný fyrirtæki verið stofnuð og haslað sér völl á fjarskiptamarkaði. Þar með hefur starfsemi á sviði fjarskipta aukist mikið með fjölgun þekkingar- og tæknistarfa og hefur sú þróun á allra síðustu missirum og árum skapað nýja vídd í atvinnustarfsemi í landinu. Ég endurtek að ég tel að allar þessar breytingar á tiltölulega fáum árum kalli á það að breyting verði á eignarhaldi á Landssímanum, eins og frv. sem hér er til umfjöllunar gerir ráð fyrir.

Með ríkið sem eina eiganda Landssímans eru til staðar pólitísk tök á fyrirtækinu sem eru að mörgu leyti óheppilegt fyrirkomulag í samkeppnisumhverfi. Það gerir m.a. stjórnendum Landssímans erfitt um vik. Þeir eru oft eins og á milli steins og sleggju, milli stjórnvalda og pólitískra hagsmuna annars vegar og samkeppnisaðila og hins frjálsa markaðar hins vegar. Þetta kallar í mínum huga á breytt eignarhald á fyrirtækinu og þar gildir einu hvort um er að ræða grunnnetið svokallað eða aðra hluta fyrirtækisins sem starfa meira á samkeppnissviði. Afstaða þingmanna Samfylkingarinnar til þessa atriðis kemur mér örlítið á óvart, hæstv. forseti. Ég hef staðið í þeirri trú að Samfylkingin hafi með málflutningi sínum mælst til að dregið yrði úr ríkisafskiptum og ríkiseinokun á ýmsum sviðum. Ég hefði haldið að Samfylkingin væri tilbúin að fallast á þau rök í þessu máli.

Almennt virðist mikill meiri hluti fyrir því í þjóðfélaginu, samkvæmt því sem fram hefur komið, að ríkið selji öðrum eignarhluta í Landssímanum. Hins vegar hefur verið ágreiningur um það hvort selja eigi fyrirtækið í einu lagi eða skilja hið svokallaða grunnnet frá við söluna og ríkið eigi það alfarið. Umræðan um hið svonefnda grunnnet hefur verið nokkuð óskilgreind að mínu mati. Ég kalla eftir því í þessari umræðu að þeir sem hafa talað fyrir því að halda grunnnetinu eftir við þessa sölu geri nánar grein fyrir því hvað átt er við með hugtakinu ,,grunnnet``. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það komi fram og stjórnarandstaðan skýri nákvæmlega hvaða hluta fjarskiptakerfisins í heild sinni átt er við þegar menn tala um grunnnet og að það eigi að halda því eftir í eigu ríkisins. Ég kalla eftir þessu, hæstv. forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt vegna málefnalegrar umræðu um málið að þetta komi fram.

Niðurstaðan í frv. sem hér er til umræðu lýsir sameiginlegri afstöðu stjórnarflokkanna og gerir ráð fyrir því að selja fyrirtækið í einu lagi eins og það er samsett í dag. Í úttekt sem framkvæmdanefnd um einkavæðingu lét gera og birtist í skýrslu nefndarinnar um einkavæðingu og sölu hlutabréfa í Landssímanum koma fram ítarleg rök fyrir því að ekki er lagt til að grunnkerfinu verði haldið eftir í eigu ríkisins. Þessi afstaða byggist m.a. á rekstrarlegum rökum og ekki síður tæknilegum rökum, þ.e. að ekki sé ástæða til að skipta fyrirtækinu upp með þessum hætti út frá sjónarmiðum um þjónustu, samkeppni eða vegna fyrirhugaðrar einkavæðingar fyrirtækisins.

Tæknilegu rökin gegn því að skilja grunnnetið frá við sölu fyrirtækisins eru m.a. að erfitt sé að skilja þjónustu grunnnetsins frá annarri þjónustu fyrirtækisins og ef slíkur aðskilnaður eigi að fara fram kalli það á fjárfestingar í stjórn og tengibúnaði sem mundi þýða mjög aukinn kostnað fyrir neytendur. Þetta hefur, herra forseti, margoft komið fram í þessari umræðu. Þó er rétt að taka fram að auðvitað er tæknilega mögulegt að skilja grunnnetið frá. Hins vegar er bent á hina óhagstæðu þætti þess, að það mundi hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir neytendur o.s.frv. Ég vísa þar í rök sem koma fram í skýrslu einkavæðingarnefndar.

Þau rök hafa verið sett fram fyrir því að ríkið eigi grunnnetið að það tryggi betur eðlilegan aðgang samkeppnisaðila Landssímans að fjarskiptanetinu. Þessi rök eiga vart við þar sem gildandi fjarskiptalög kveða á um slíkan aðgang. Einnig má benda á að fjarskiptafyrirtæki í samkeppni við Landssímann eru þegar byrjuð að leggja og byggja upp sín fjarskiptanet ásamt því að rafstrengir eru nýttir til gagnaflutninga og áform eru um að auka við það. Fjarskipti eiga sér einnig stað með örbylgjum.

Það að grunnnetið sé í eigu fjarskiptafyrirtækis sem starfar í samkeppnisrekstri og er knúið áfram við framþróun og innleiðingu nýjustu tækni í samkeppni við innlend og erlend fjarskiptafyrirtæki hlýtur að tryggja að fjarskiptanetið verði í stöðugri uppbyggingu sem tryggir bestu gæði á hverjum tíma. Ef grunnnetið væri alfarið í eigu ríkisins væri að mínu mati ekki hægt að halda því fram fyrir fram að uppbygging og gæði netsins yrðu meiri en ef það yrði í eigu Landssímans áfram. Að öllu samanlögðu má því færa rök fyrir því að það sé í þágu neytenda og landsmanna allra að grunnnetið verði í eigu Landssímans en ekki skilið frá fyrirtækinu og alfarið eign ríkisins.

Meginforsenda þess að allir landsmenn hafi aðgang að fjarskiptanetinu með sambærilegum gæðum og verði er að löggjöf um fjarskipti séu þannig úr garði gerð að slíkt verði tryggt. Í raun og veru gildir þar einu hvort Síminn er í eigu ríkisins eða ekki. Einnig þurfa þær eftirlitsstofnanir sem starfa á þessu sviði, bæði Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun, að vera virkar og sinna hlutverki sínu gagnvart öllum aðilum á fjarskiptamarkaði.

Herra forseti. Fjarskiptalöggjöfin sem í gildi er og var lögfest hér 1999 leggur að mínu mati grunninn að því að það er framkvæmanlegt að selja fyrirtækið. Ég verð að segja að eftir að hafa hlustað á umræðuna í dag finnst mér að sumir hv. þm. séu ekki með það á hreinu hvað felst í þessum lögum. Ég ætla að stikla hér á nokkrum atriðum sem skipta verulegu máli í þessu sambandi.

Í fyrsta lagi ber að nefna skylduna til að veita alþjónustu og skilgreininguna á alþjónustu. Skilgreiningu alþjónustu var breytt við setningu áðurnefndra laga. Áður náði alþjónusta eingöngu yfir talsímaþjónustu en með núgildandi lögum nær alþjónusta einnig yfir gagnaflutningsþjónustu með 128 Kb/s flutningsgetu sem notuð er til að tengjast um heimtaugar almenna talsímanetsins. Í mínum huga skiptir þetta atriði verulega miklu máli. Það á að tryggja að landsmenn alls staðar á landinu geti tengst fjarskiptanetinu með sambærilegum gæðum um allt land.

Í lögunum um fjarskipti er einnig um að ræða ákvæði um jöfnunargjald til að bera uppi þjónustu á óhagkvæmum svæðum. Hér hafa menn m.a. talað um að ekki sé heppilegt og eðlilegt að skipta landinu upp í slík svæði. Við verðum hins vegar að lifa í þeim veruleika og átta okkur á þeim staðreyndum sem gilda í dag og ég tel að ákvæðin um jöfnunargjaldið séu mjög mikilvæg að þessu leyti. Ákvæði laganna kveða einnig á um opinn aðgang samkeppnisaðila að fjarskiptanetinu. Þar með er samkeppni á þessu sviði virk, þ.e. samkeppnisaðilar Landssímans, sem hefur eignarhaldið á fjarskiptanetinu, eiga samkvæmt lögunum að hafa aðgang að þessu neti. Þetta er einnig mjög mikilvægt atriði varðandi þetta mál.

Hægt væri að tína hér til, herra forseti, fleiri atriði laganna, svo sem varðandi aðgang að leigulínum, aðgang að heimtaugum og reikisamningum varðandi farsímaþjónustuna. Rétt er að benda á að nýlega tóku gildi samningar milli Landssímans og Tals, sem eru þau fyrirtæki sem fram undir þetta, skulum við segja, hafa veitt farsímaþjónustu og GSM-þjónustu --- að vísu er Íslandssími tekinn til við að veita þá þjónustu núna. Ákvæði laganna tryggja það og hafa gert það að verkum að þessir aðilar hafa gert samninga um aðgang að fjarskiptanetunum þannig að þeir notendur sem eiga viðskipti við Tal geta gert það þar sem Landssíminn er með samband. Einnig þetta tryggir samkeppnina og aðgang neytenda að fjarskiptanetinu.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að tína fleira til úr þessum lögum. Ég vildi nefna nokkur atriði til stuðnings við eða sem rök fyrir því að grunnnetið, sem menn tala um, verði selt með fyrirtækinu. Í mínum huga, eins og ég hef áður sagt, skapa fjarskiptalögin grundvöll þess að það sé framkvæmanlegt.

[16:15]

Í þessari umræðu hefur stjórnarandstæðingum verið tíðrætt um afstöðu framsóknarmanna. Það er rétt sem fram hefur komið að einstakir flokksmenn og þingmenn hafa lýst skoðunum sínum á fyrri stigum málsins um að ríkið eigi að halda grunnnetinu eftir. Hins vegar liggur hér fyrir frv. þar sem Framsfl. stendur fullkomlega að því eftir nána skoðun á þessu máli. Það ber að taka það fram að flokkurinn sem slíkur hefur ekki mótað sérstaka afstöðu eða stefnu um það hvernig á að framkvæma sölu fyrirtækisins. Það birtist hins vegar í því frv. sem hér liggur fyrir og ber að túlka það á þann hátt.

Við meðferð málsins í þingflokki framsóknarmanna var samþykkt að málið næði fram að ganga og yrði lagt fram á hinu háa Alþingi með ákveðnum, kannski er ekki rétt að segja fyrirvörum, en þannig að tekið verði tillit til tiltekinna atriða. Þar á meðal er að stjórnarflokkarnir móti sameiginlega framtíðarstefnu um uppbyggingu fjarskiptakerfisins um allt land þannig að landsmenn eigi aðgang að sem sambærilegastri þjónustu fyrir sama verð og tryggt verði fjármagn til nauðsynlegra framkvæmda í þessu skyni. Þarna leggja framsóknarmenn áherslu á það, sem er reyndar kveðið á um í fjarskiptalögum, að allir landsmenn eigi aðgang að fjarskiptanetinu um allt land á sambærilegu verði. Í öðru lagi að stjórnarflokkarnir gangi frá samkomulagi um áfangaskiptingu sölu fyrirtækisins, sérstaklega með tilliti til þess hvenær meiri hluti fyrirtækisins skuli seldur. Einnig kemur fram að stjórnarflokkarnir geri með sér samkomulag um ráðstöfun söluandvirðis ríkisfyrirtækja og í þessu tilviki Landssímans. Og loks að eftirlitsstofnanir ríkisins á þessum sviðum, þ.e. Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun, verði styrktar til að vera virkari í því að sinna eftirlitshlutverki sínu.

Herra forseti. Ég dreg þetta fram í tilefni af þeirri umræðu sem hefur farið fram í dag og til að skýra nánar afstöðu þingflokks framsóknarmanna í málinu.

Herra forseti. Ég fer að ljúka máli mínu en svona rétt í lokin vil ég segja það að ég mun að sjálfsögðu taka þátt í umfjöllun þessa máls í hv. samgn. Ég vil enda mál mitt á því að leggja áherslu á tvö grundvallaratriði sem ég tel að skipti verulega miklu máli. Það er í fyrsta lagi hið breytta rekstrarumhverfi og almenna starfsumhverfi fjarskipta, bæði innan lands og á alþjóðlegum vettvangi, sem kom m.a. fram í reglum sem voru innleiddar 1. jan. 1998 þegar afnuminn var einkaréttur ríkisins í fjarskiptum og opnað fyrir samkeppni á þessu sviði. Ég met það svo að í framhaldi af þessari þróun og þessum breytingum kalli staða mála í rauninni eftir því að eignarhaldi Landssímans verði breytt.

Í öðru lagi tel ég að gildandi fjarskiptalög séu grundvallaratriði varðandi þetta mál og þau ákvæði sem þar eru, sem ég hef stiklað á stóru yfir, feli það í sér og miði að því að auka samkeppni og allt er það í þágu neytenda. Þessi löggjöf skapar að mínu mati grundvöll þess að framkvæmanlegt sé að selja hlut í Landssímanum.

Eins og ég segi mun ég koma nánar að þessu máli í umfjöllun í samgn. og hef því lokið máli mínu í bili.