Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 17:17:16 (7177)

2001-05-02 17:17:16# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[17:17]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Nú liggur ljóst fyrir og hefur komið skýrt fram, m.a. í þessari umræðu, að þetta mál hefur verið Framsfl. mjög erfitt. Ýmsir þingmenn Framsfl. hafa þurft að skipta um skoðun miðað við það sem þeir hafa áður sagt. Það liggur fyrir að framsóknarmenn gerðu ákveðna bókun með fjórum skilyrðum til þess að geta gengið að málinu eins og það liggur fyrir þinginu.

Ég vil í fyrsta lagi spyrja hv. þm. um samkomulagið, þessa fjóra töluliði samkomulags sem gert hefur verið við sjálfstæðismenn: Liggur fyrir að samstarfsaðilinn gangi að þeim skilyrðum sem framsóknarmenn hafa sett fram í bókun sinni?

Í 1. tölul. bókunarinnar er talað um að móta sameiginlega framtíðarstefnu um uppbyggingu fjarskiptakerfisins um allt land þannig að landsmenn eigi aðgang að sem sambærilegastri þjónustu og tryggt verði fjármagn til framkvæmda í því skyni. Hvað eru menn að tala um? Hvað er verið að tala um mikið fjármagn í þessu efni? Liggur fyrir samkomulag um að í það verði veitt fjármagn?

Í annan stað er talað um að stjórnarflokkarnir geri með sér samkomulag um ráðstöfun á söluandvirði ríkisfyrirtækja. Þetta er svolítið sérkennileg bókun, líkt og verið sé að skipta á milli sín góssinu af sölu Símans. Hvað er átt við þegar talað er um að stjórnarflokkarnir geri með sér samkomulag um ráðstöfun á söluandvirði ríkisfyrirtækja?

Í lokin, varðandi það að efla og styrkja eftirlitsstofnanir, þá er ég einkum með Samkeppnisstofnun í huga: Hvað er átt við þegar talað er um að styrkja Samkeppnisstofnun? Er verið að treysta lagasetninguna á bak við stofnunina eða er verið að tala um að setja meira fjármagn í Samkeppnisstofnun? Ef svo er, liggur þá fyrir samkomulag um fjármagnið sem renna á til að efla Samkeppnisstofnun?