Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 17:23:39 (7181)

2001-05-02 17:23:39# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[17:23]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í upphafi ræðu hv. þm. Jónínu Bjartmarz sagði hún að allt þetta mál hefði legið ljóst fyrir hjá ríkisstjórnarflokkunum frá upphafi. Hún sagði að rekja mætti rót þess til stefnuyfirlýsingar sem gefin var fyrir margt löngu og því sé það óþarfa uppþot í stjórnarandstöðunni að gera því skóna að þinginu sé ekki ætlaður neinn tími til að fjalla um málið.

Hins vegar hefur komið fram að það tók um þrjár vikur eða svo fyrir þingflokk framsóknarmanna að afgreiða þetta mál. Hann afgreiddi það síðan með bókun sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór yfir áðan. Bókunin segir óskaplega lítið og ekkert um það hvort nokkuð annað sé á bak við hana en vilji þingflokks framsóknarmanna.

Ég ætla þó ekki að gera þetta að aðalumræðuefni hér. Fyrst og fremst vildi ég segja þetta: Hv. þm. talaði um að samkeppnin á þessu sviði hefði leitt af sér lægra verð, betri þjónustu o.s.frv. Um þetta erum við algerlega sammála. Hins vegar erum við ósammála um markaðsgerðina, þ.e. þá aðferð sem hér á að beita sem gerir það að verkum að á markaðnum verður yfirburðafyrirtæki sem hefur völd og áhrif á öllum sviðum á móti mörgum litlum fyrirtækjum. Við erum þeirrar skoðunar að þetta sé ekki til þess fallið að tryggja að við náum samkeppnismarkmiðum.

Mér fannst vanta í orðræðu hv. þm. skoðun hennar á því hvort hin leiðin hefði ekki gert það að verkum að við næðum þessum samkeppnismarkmiðum. Reyndar fannst mér sjálfum í lok ræðu hv. þm. að hún hefði ákveðnar efasemdir um leiðina sem farin er í frv. en hefði þó fallist á hana, væntanlega í ljósi áðurnefndrar bókunar. Eitthvað hefur í það minnsta gert það að verkum en hún féllst á hana.