Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 17:25:56 (7182)

2001-05-02 17:25:56# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[17:25]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Mér kemur ekki á óvart að ég og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson séum hjartanlega sammála um margt sem varðar sölu Landssímans og einkavæðinguna sem slíka. Ég neita því ekki að það hvort selja eigi grunnnetið eða ekki er nokkuð sem ég hef velt vandlega fyrir mér. Því hafa helst valdið efasemdir manna um að hægt sé að tryggja jafnan aðgang og jafnt verð til allra landsmanna með því að selja það í stað þess að halda því eftir í ríkiseign.

Það liggur fyrir í þeirri ágætu skýrslu sem er meginuppistaðan í því frv. sem hér er til umræðu að það er tæknilega framkvæmanlegt að skilja grunnnetið frá fyrirtækinu. Menn hafa hins vegar varað við því að það gæti orðið óskaplega dýrt. Ég ætla ekki að fara út í að skilgreina hvað grunnnetið er. Hér hafa menn reynt að einfalda það og í því sambandi eingöngu talað um ljósleiðarann, sem er náttúrlega til þess fallið að valda tómum misskilningi.

Niðurstaða mín er sú að það sé ekki þörf á að halda grunnnetinu eftir. Með fjarskiptalögunum og þeim kvöðum sem lagðar eru á Landssímann með alþjónustu og annað tel ég hægt að tryggja þessi markmið jafnhliða sölunni, að tryggja jafnræði þrátt fyrir að við seljum grunnnetið. Ég veit ekki til annars en að mikil ánægja hafi verið meðal annarra fjarskiptafyrirtækja á markaði síðustu missirin með samskiptin við Landssímann og full sátt sé með þá samninga sem þar hafa náðst. Ég tek fram að þau fyrirtæki kaupa þjónustuna að grunnnetinu á sama verði og aðrar rekstrareiningar Landssímans.