Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 17:30:13 (7184)

2001-05-02 17:30:13# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[17:30]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Ég held ég þurfi að láta það bíða betri tíma að gera hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni grein fyrir framtíðarsýn minni í fjarskiptamálum. Ég held að ég nái því ekki á þeim skamma tíma sem hér er til ráðstöfunar.

Hins vegar varðandi ríkisreksturinn, og það hefur verið ágæt lausn í sjálfu sér, þá held ég að ég þurfi ekki að rifja það upp með hv. þm. hve fólk á landsbyggðinni hefur til margra ára kvartað yfir því að þeir sætu ekki við sama borð og fólk á höfuðborgarsvæðinu hefur setið. Markvisst hefur verið unnið að því af hálfu Landssíma Íslands að hluta til með því samkomulagi sem ég greindi frá í ræðu minni að Landssíminn hefði gert við samgrh. að bæta bæði aðgang og lækka það verð sem landsbyggðin hefur búið við og það fellur vissulega að þeim markmiðum og þeim takmörkum sem Framsfl. hefur sett sér varðandi þessa sölu. Markmiðið er í sjálfu sér að tryggja aðgang og tryggja jafnt verð fyrir landsmenn á landinu öllu. Ég get ekki séð annað en að með þeim framkvæmdum sem standa nú til séum við enn frekar að tryggja að hægt sé að jafna þetta verð. En ég vil aðeins fá að benda á að það er uppbygging í fjarskiptakerfinu sem ríður á að sé kláruð sem fyrst vegna þess að skorturinn á dreifikerfinu úti á landi veldur því að verðið þar er mun dýrara. Um leið og uppbyggingunni er lokið þarf þjónustan á landsbyggðinni ekki að vera dýrari en á höfuðborgarsvæðinu.