Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 17:32:05 (7185)

2001-05-02 17:32:05# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[17:32]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt vegna þeirrar hröðu þróunar sem er í þessum málaflokki sem uppbyggingunni verður aldrei lokið. Þess vegna er málið svo eldfimt. Þetta er stöðug þróun og menn sjá ekki einu sinni fyrir hvað muni gerast á allra næstu missirum. Það er þess vegna sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur viljað og vill beita sér fyrir því að fyrirtækið sé áfram og verði áfram í ríkiseign og það hefur margoft komið fram í dag. En ég vil spyrja hv. þm. að því sem samvinnumann og jafnaðarmann í Framsfl. hvað hv. þm. flokki undir sem stoðkerfi landsins. Hvar mun Framsfl. enda í þessum efnum? Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði flokkum símaþjónustuna og fjarskiptaþjónustuna undir stoðkerfi landsins. Við viljum ekki einkavæða stoðkerfi landsins.

Verður Framsfl. til að ríða á einkavæðingarbylgju gagnvart heilsugæslu, gagnvart sjúkrahúsum, gagnvart elliheimilum og öldrunarþjónustu, gagnvart menntuninni? Hvar á að enda? Þetta eru allt stoðkerfisdæmi sem við erum algerlega andvíg að einkavæða. Af því að þetta er uppi á borði hér væri gaman að fá skoðun þingmannsins á því hvar eigi að enda. Hvað er stoðkerfi?