Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 17:35:04 (7187)

2001-05-02 17:35:04# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[17:35]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. hefur flutt frv. til laga um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf. sem við stjórnarandstæðingar höfum heyrt af og fylgst með undanfarið. Hér hefur verið farið yfir það mál og þann vandræðagang sem verið hefur í stjórnarliðinu við þetta mál þannig að okkur stjórnarandstæðingum verður ekki kennt um það hversu seint málið kemur fram. Það hefur tekið nokkra mánuði hjá stjórnarflokkunum að reyna að finna einhvern flöt á því að leggja þetta fram. Fram hefur komið að málið var stopp hjá framsóknarmönnum í upp undir einn mánuð. Þess vegna er það mikil óvirðing við hið háa Alþingi að leggja frv. fram svo seint sem raun ber vitni og ætla Alþingi að klára það á 5--6 dögum. Það eru ekki vinnubrögð sem mér finnst til sóma fyrir hið háa Alþingi. Reyndar er með ólíkindum með ýmis önnur frv. sem eru að detta inn á borð okkar núna sem á að keyra í gegn á aðeins nokkrum dögum sem eftir eru. Betra hefði verið að þetta hefði komið fyrr að þinginu og samgn. hefði gefist góður tími til að fara í gegnum málið vegna þess að sennilega verður þörf á því í samgn. að kalla til sín fjölmarga aðila og heyra í þeim hvað varðar þessa sölu og kannski sérstaklega þann aðskilnað sem við höfum verið að tala um og að selja ekki frá okkur grunnnetið. Þá vænti ég þess að hæstv. samgrh. sé sama sinnis og ég að ekki er nóg að kalla eingöngu til fulltrúa höfuðborgarsvæðisins í því efni. Það þarf að fá aðila utan af landi, sem þetta brennur mikið á, aðila sem eru að reyna að byggja upp fyrirtæki sín þar en hafa mætt ýmsum hraðahindrunum hæstv. ríkisstjórnar og ýmsum hraðahindrunum Landssímans hvað það varðar.

Hæstv. samgrh. minntist á það í frumflutningi sínum á þessu máli í morgun og ræddi um stöðu efnahagsmála og hvort rétt væri að selja þetta þegar staðan í efnahagsmálum væri betri en hún er í dag. Herra forseti. Við Íslendingar vorum, vil ég segja, að njóta þess vafasama heiðurs að í dag var gengi íslensku krónunnar að falla um 5--6% miðað við dollar. Hvaða áhrif þetta hefur á efnahagslífið væri hægt að hafa langt mál um hér. Ég held að þetta séu ein mestu tíðindi sem við erum að fá. Ég hefði haldið að við ættum frekar að ræða efnahagsmál í dag en sölu Landssímans. Það væri meiri þörf á því. Það væri þörf á því að hæstv. forsrh. væri í salnum til að ræða þessi mál nú á 10 ára afmæli hans sem forsrh. Ég get ekki séð að hægt sé að hreykja sér af miklum afrekum í efnahagsmálum um þessar mundir.

Hann gat jafnframt um að salan til einstaklinga hér á landi væri til að auka sparnað almennings. Ég er ekki svo viss um það, herra forseti, að almenningur eigi svo mikið eftir til þess að kaupa hlutabréf í Landssímanum á næstunni, því er nú verr og miður. Sennilega væri þörf á því að það væri hægt og það hefur komið fram að það gæti vel verið að í því leyndist töluverð hagnaðarvon og miðað við vaxtastefnuna eins og hún hefur verið undanfarið þar sem allt er verið að pína og efnahagslífið er farið að hökta á hraða snigilsins.

Ég vildi aðeins nefna þetta vegna þess að þetta bar hér á góma en til að fyrirbyggja allan misskilning leggjumst við alls ekki gegn sölu á samkeppnishluta Landssímans og það hefur komið fram í ræðum þingmanna Samfylkingarinnar. Við leggjumst hins vegar gegn sölu á gagnaflutningskerfinu, grunnnetinu, og það hefur verið skýrt mjög vel af þeim sem hér hafa talað og ég ætla að koma aðeins betur að því á eftir.

Í þessu frv. er líka sala á 25% hlut til stórs aðila og jafnvel erlendis. Ég ætla að segja það hér og nú að ég ætla rétt að vona að okkur takist að selja þennan hlut og þá þess vegna sem allra fyrst til erlends aðila því ekki veitir af innstreymi gjaldeyris til landsins um þessar mundir. Það gæti kannski orðið til þess að fara með krónuna eitthvað aðeins niður á við og bæta gengið eins og það hefur verið miðað við það sem ég hef verið að segja hér áðan að dollarinn skuli vera kominn upp í 103 kr. í lok dags og menn gátu nánast fylgst með því frá klukkutíma til klukkutíma hvernig krónurnar fóru þar. Sannarlega væri þörf á því en ég minni jafnframt á að hæstv. ríkisstjórn getur ekki treyst á það sem stóran lið í efnahagsstefnu sinni að selja allar eigur okkar til útlanda vegna þess að þær eigur verða ekki seldar aftur.

Það hefur komið fram varðandi grunnnetið, sem við höfum verið að fjalla um og viljum að sé undanskilið í þessu, og það kemur fram í fylgigögnum með frv. frá nefndinni sem hefur fjallað um málið og þeim sérfræðingum sem um það fjölluðu, að það er hægt tæknilega og rekstrarlega að aðskilja það frá sölunni. Við teljum að ríkið, eins og segir í samningnum um ljósleiðarapörin þrjú af átta sem NATO á, geti haldið sérstöku fyrirtæki utan um þetta atriði til að hafa þann möguleika að ríkið stjórni því hverjum er seldur aðgangur að því og að allir aðilar á þessum markaði geti að sjálfsögðu keypt þessa þjónustu og tryggt sé að engar samkeppnishindranir séu í þeirri sölu, hvorki hvað varðar verð né tíma sem það tekur að skaffa þeim aðilum þá þjónustu sem þeir vilja, en við höfum heyrt af því að ýmsar aðferðir eru notaðar til þess að draga þá aðila sem þurfa að fá línur og þjónustu frá Landssímanum á langinn og svo furðulegt sem það nú er sé Landssíminn stundum búinn að hafa samband við þá aðila og bjóða þeim þá þjónustu sem hinn aðilinn hefur ætlað að bjóða þeim.

Ég sagði, í stuttu andsvari í morgun við hæstv. samgrh., að það hefði þurft tilskipun að ofan frá hæstv. samgrh. á aðalfundi Landssímans til að breyta gjaldskrá Landssímans í þá veru að fyrirtæki á landsbyggðinni ættu einhvern smárekstrargrundvöll hvað varðar leigu á 1 og 2 megabæta leigulínu, og það er ekki tími til þess núna, herra forseti, á þeim 20 mínútum sem ég hef til þess að fara í gegnum þetta. En munurinn var hrikalegur. Hann hefur verið leiðréttur að hluta til en alls ekki að öllu leyti. Enn þá er miklu ódýrara fyrir fyrirtæki sem er stutt frá apparatinu í Reykjavík að leigja sér 1 og 2 megabæta leigulínu en fyrirtæki t.d. vestur á Ísafirði eða austur á Egilsstöðum. Það munar miklu. Þetta lækkaði mest á stuttum leiðum.

Þegar ég segi að það eigi að halda grunnnetinu frá og stjórnarsinnar hafa verið að andmæla því að það sé erfitt að gera það og í áliti sérfræðinga í þessari skýrslu kemur fram að það verði baggi á ríkissjóði að reka þetta. Ég vil aðeins minna á að þetta er nú þegar aðgreint í bókhaldi Landssímans eftir skipun frá Póst- og fjarskiptastofnun. Þannig er hægt að skilgreina mjög vel hvað tilheyrir grunnnetinu og hvað ekki. Í því sambandi má líka nefna og minna á samninginn sem gerður var við NATO um þau þrjú ljósleiðarapör af átta sem hér er fjallað um. Það var auðvelt og er auðvelt að koma þeim samningi á, bæði hvað varðar þjónustuskyldu, endurgjald fyrir þræðina og þetta allt saman og því skyldi það ekki vera hægt fyrir aðra þætti í grunnnetinu, enda eins og ég segi hefur það ekki verið hrakið hér, hvorki af stjórnarsinnum né öðrum að ekki séu tæknilegar forsendur til að gera þessa þætti. Þeir eru fyrir hendi.

Eitt í viðbót, herra forseti, sem mælir með því að grunnnetinu sé haldið aðskildu í fyrirtæki sem ríkið á og leigir öllum þeim sem vilja fá afnot af, það er til að koma í veg fyrir þá, við skulum segja, þjóðhagslegu vitleysu sem felst í því að hvert einasta fyrirtæki er farið að leggja ljósleiðara hingað og þangað, annaðhvort um höfuðborgarsvæðið eða Reykjavík, á Suðurlandi eða leggja strengi norður o.s.frv. Það er ekki þjóðhagslega hagkvæmt að ætla að gera þetta þannig að öll fyrirtæki vilji frekar leggja í þann mikla kostnað eins og því er samfara að leggja ljósleiðara þess vegna norður í land eða þess vegna austur á land, austur á Egilsstaði, lengstu leið sem hægt er að fara, frekar en standa í því stappi að ná viðskiptum við Landssímann til að nota það sem hér á að nota. Enda er það líka svo að þegar þessi atriði eru höfð í huga og sú þjónusta sem við krefjumst af þessu í dag, þá er eiginlega sama hvaða reglur eru lagðar undir núna í fjarskiptageiranum, sem eru sjálfsagðar kröfur dagsins í dag. Það er nefnilega svo vegna örrar tækniþróunar að það sem menn segjast vera búnir að uppfylla og þau atriði sem við viljum að þeir uppfylli getur verið orðið úrelt eftir eitt ár og hvaða tryggingu höfum við fyrir því að nýir eigendur Landssímans geti ekki bara andmælt nýjum kröfum frá Póst- og fjarskiptastofnun þegar tækninni fleygir fram, geti þess vegna farið í mál við ríkið og unnið það mál jafnvel vegna þess að þeir telja sig vera búna að uppfylla þau skilyrði sem við setjum en tækniþróunin er slík að hún er margfalt meiri en við gerum okkur í raun grein fyrir og sjáum fyrir um þannig að þessir þættir geta stórbreyst á næstu mánuðum og næstu árum.

[17:45]

Herra forseti. Hér hefur dálítið verið rætt um þann viðsnúning sem hefur orðið hjá framsóknarmönnum gagnvart grunnnetinu. Þeir hafa boðað það í allan vetur og það höfum við séð á heimasíðu iðnrn., hjá byggðamálaráðherra, þar sem fjallað er um þessi atriði, en svo virðist vera að Framsfl. hafi hreinlega látið undan og gefist upp fyrir stóra bróður sínum Sjálfstfl. eins og í svo mörgum öðrum málefnum. Hæstv. félmrh. var svo hreinskilinn að hann komst þannig að orði í svæðisútvarpi Norðurlands að Framsókn hefði bara hreinlega gleymt landsbyggðinni í markaðssetningu sinni á höfuðborgarsvæðinu. Það getur vel verið að það sé svo í þessu máli einnig, því að á heimasíðu iðnrn. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Þar sem þjónustusalan er hinn raunverulegi samkeppnisrekstur er litið svo á að þennan hluta Landssímans hf. eigi við fyrsta tækifæri að selja (einkavæða). Aftur á móti ætti að fara hægar í að einkavæða rekstur grunnkerfisins, mikilvægara er að halda áfram og ljúka uppbyggingu þess.``

Síðan er sett fram tillaga sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Landssímanum hf. verði skipt í tvö sjálfstæð fyrirtæki. Annars vegar fyrirtæki sem á og rekur grunnkerfið, þ.e. dreifikerfið ásamt nauðsynlegum búnaði, og hins vegar fyrirtæki sem annast almenna síma- og fjarskiptaþjónustu.``

Þetta er eins og talað út úr mínu hjarta. Hvað hefur svo breyst? Jú, ég held að það eitt hafi breyst að Sjálfstfl., sem er mjög umhugað um að selja þetta allt saman sem allra fyrst, að þar bíði ýmsir við skulum segja vildarvinir Sjálfstfl. eftir að fá að kaupa sem allra fyrst meðan gengið er lágt. En hvað hefur breyst hjá framsóknarmönnum?

Hér hefur verið vitnað í það, herra forseti, hvað hv. þm. Hjálmar Árnason hefur sagt í þessum efnum og rætt um Microsoft-ástand og fleira sem gæti skapast. Ég minni á að hann er varaformaður samgn. Nei, herra forseti. Greinilegt er að Framsfl. hefur gefist upp í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum í þessu stjórnarsamstarfi og lúffar frekar en láta steyta á og halda því sem þeir hafa áður sagt og reyna að standa vörð gagnvart landsbyggðinni.

Ég óttast það, herra forseti, allra mest að með sölu á þessu öllu saman, þar með talið grunnnetinu, verði möguleikar landsbyggðarinnar stórskertir. Ég óttast að þegar farið verður að gera meiri kröfur til Landssímans, aðrir aðilar verði búnir að eignast 49%, þar á meðal þessir ráðandi hluthafar, þá verði gerðar allt aðrar kröfur þannig að við munum sjá ýmislegt enn þá verr en hefur verið hingað til í starfsemi Landssímans gagnvart landsbyggðinni og nægir þar að nefna það sem ég var að tala um áðan, langa baráttu fyrirtækja á landsbyggðinni fyrir lækkun á leigulínum sem tók allt of langan tíma t.d. eins og bara breytingar á því hvernig þetta er verðlagt. Nágrannaþjóðir okkar nota loftlínulengd en ekki línulengd þar sem lagt er fyrir hvern fjörð. Danir hafa hámark 75 km loftlínu. Við erum ekki með nein hámörk. Á þetta hefur verið bent við Landssímann en ekkert hefur verið gert. Gera menn sér grein fyrir því að línulengd vestur á Ísafjörð eru tæpir 500 km meðan loftlínan er 200 km? Það eru ótal mörg atriði sem ekki hefur tekist að koma fram við Landssímann sem ríkisfyrirtæki í breytingarátt til hagsbóta fyrir lítil fyrirtæki sem eru að hasla sér völl á landsbyggðinni, sem eru að reyna að byggja upp aðra atvinnustarfsemi vegna þeirra atvinnuháttabreytinga sem átt hafa sér stað undanfarin ár, en þessum fyrirtækjum er gert það ókleift og þau standa ekki jafnfætis fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu hvað rekstrarskilyrði varðar.

Eitt í viðbót, herra forseti. Við vitum að Landssíminn gefur sig út fyrir að vera vel rekið fyrirtæki og ég ætla ekki að draga dul á það sem hér hefur komið fram, ég held að Landssíminn sé ákaflega vel rekið fyrirtæki í raun og veru. En það hefur ekki hagsmuni allra landsmanna í heiðri, engan veginn miðað við það sem ég hef verið að taka sem dæmi um. Ég þekki að það hefur tekið fyrirtæki sem hefur óskað eftir leigulínu eða öðru slíku mjög langan tíma að fá slíkt. Og það sem ég var að nefna áðan, sem er dálítið furðulegt, er að í millitíðinni skuli söluaðilar frá Landssímanum koma og hitta akkúrat á það fyrirtæki sem vildi skipta við fyrirtæki á landsbyggðinni og bjóða þá þjónustu sem hinn aðilinn hefur verið að biðja um og bjóða.

Herra forseti. Ræðutími minn í þessari 1. umr. er senn á enda. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi máls míns. Ég er hlynntur sölu Landssímans, samkeppnishluta Landssímans. Ég er hins vegar alfarið á móti því sem hér hefur komið fram, sem varð niðurstaða stjórnarflokkanna um að selja þetta allt, þar á meðal grunnnetið, grunnkerfið, vegna þess sem ég hef lýst hér gagnvart landsbyggðinni. Það er sannarlega hætta á ferðum hvað það varðar. Þjónustan hefur ekki verið allt of góð hingað til hjá Landssímanum gagnvart landsbyggðinni. Það hefur tekið langan tíma að fá hluti. Ég óttast að það muni ekki skána heldur versna við einkavæðinguna og söluna á sjálfu grunnnetinu.