Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 18:21:51 (7193)

2001-05-02 18:21:51# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[18:21]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það eru fleiri spurningarnar sem hv. þm. lagði fyrir mig en svo að ég geti svarað þeim í stuttu andsvari.

En fyrst vegna fyrirspurnar um bókun þingflokks Framsfl. þá vil ég almennt segja um þá fyrirspurn frá hv. þm. að enginn ágreiningur er milli stjórnarflokkanna um þau atriði kom fram í þeirri bókun. Flest af þeim atriðum sem þar koma fram er að finna í ræðu minni þegar ég mælti fyrir frumvarpinu fyrr á þessum degi þannig að flokkarnir eru samstiga í því sem þar kemur fram.

Hvað það kostar sem þar er nefnt þá hefur ekki verið lagt neitt mat á það en það er alveg ljóst að það er fyrst og fremst kostnaður sem fyrirtækið þarf að leggja út á fullkomlega viðskiptalegum forsendum, að byggja upp fjarskiptakerfið o.s.frv., þannig að ekki er verið að tala um beinan útlagðan kostnað úr ríkissjóði. Hins vegar er það alveg ljóst að við þurfum að vinna að því að leiðir finnist til þess að tryggja sem best sambærilegt verð um landið og að því er unnið.

Hv. þm. spurði hvort verið væri að viðhalda markaðsráðandi stöðu Landssímans. Það er nú fjarri því. Við erum að opna þennan markað á grundvelli fjarskiptalaganna. Við erum að koma á samkeppni. Eins og hér hefur verið bent á margsinnis í dag er Síminn nú þegar kominn í þá samkeppni þannig að það er alls ekki verið að skapa neitt markaðsráðandi stöðu.