Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 18:24:09 (7194)

2001-05-02 18:24:09# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[18:24]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin. Þá liggur það fyrir að það er samkomulag milli flokkanna um að fara í málið með þeim hætti eins og liggur fyrir í þessari bókun. Mér finnst þá, herra forseti, að við í stjórnarandstöðunni eigum nokkra kröfu á því að fá skýrar fram hvað bókunin felur í sér. Ég hef sérstakan hug á að ráðherra tali eilítið skýrar um það sem hann fór reyndar ekki inn á, sem er þriðji töluliðurinn í bókuninni, sem fjallar um ráðstöfun á sölundvirði ríkisfyrirtækja, þ.e. þessu fyrirtæki. Það skiptir nokkru máli í þeirri stöðu sem efnahagsmálin eru núna, t.d. hvernig verja á þessu fjármagni. Það hafa aðallega verið nefndar þrjár leiðir og ég spyr um það:

Ef það liggur ekki fyrir núna, er hæstv. ráðherrann tilbúinn að beita sér fyrir því að það liggi þá fyrir hvernig eigi að ráðstafa þessum fjármunum áður en Alþingi afgreiðir þetta mál?

Ráðherra hlýtur að hafa skilning á því að stjórnarandstaðan vilji fá upplýsingar um það þegar verið er að veita slíka heimild, hvernig eigi að ráðstafa andvirðinu af sölunni á þessu fyrirtæki sem skiptir einhverjum tugum milljarða og ég spyr um það.

Af því að ég er að spyrja ráðherrann um hvort hann geti beitt sér fyrir ákveðnum upplýsingum áður en málið verður afgreitt þá spyr ég hann líka um verðmatið á fyrirtækinu: Er hann tilbúinn eða getur hann svarað því núna í þessu andsvari eða vill hann bíða með það, hvort upplýsingar um verðmatið geti legið fyrir áður en málið verður afgreitt frá Alþingi?