Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 18:30:10 (7197)

2001-05-02 18:30:10# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[18:30]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Það frv. sem við ræðum í dag er mikilvægt mál og hefur lengi staðið til að kæmi fram á hinu háa Alþingi. Þótt það komi nú með skömmum fyrirvara og hafi orðið að veita afbrigði frá þingsköpum til að taka það til umræðu þá hefur legið fyrir þegar á þessu ári, allt frá janúarmánuði sl. að það mundi koma fram, en allt frá byrjun þessa kjörtímabils hefur legið fyrir hver er vilji og ætlan ríkisstjórnar í þessu máli. Engum hefur því þurft að koma á óvart að þetta frv. yrði til umræðu fyrir þinglok.

Það skiptir miklu máli í þessu efni, herra forseti, að sú þróun mála Landssímans, að færa hann með sölu hlutafjár til einkaaðila, er einungis eðlilegur þáttur í því að upplýsingasamfélagið fái að þróast á Íslandi eins og í grannlöndum okkar því svo mikið hefur aukist notkun á fjarskiptakerfum eftir að tókst að tengja tölvubúnað við fjarskiptakerfi að ekki er hægt að líkja við annað en sprengingu. Það er hins vegar hinn eini og sanni grundvöllur upplýsingasamfélagsins að geta flutt upplýsingar, hvers konar gögn á milli notenda fjarskiptakerfa með þeim hraða sem þau nútímakerfi búa yfir og geta boðið upp á.

Það er alveg ljóst að einokunarfyrirtæki, ríkisfyrirtæki, eru ekki best búin til að taka þátt í slíku starfi þar sem stöðugt þarf að eiga samskipti við samkeppnisfyrirtæki yfir öll landamæri, hvort sem þau eru yfir höf eða fjöll, fyrir utan það að nú þegar hafa sprottið upp samkeppnisfyrirtæki sem hasla sér völl eftir eðlilegum leikreglum sem skapaðar hafa verið í fjarskiptalögum.

Það skiptir þó miklu máli, herra forseti, hvernig til tekst að jafna með þessu möguleika allra íbúa landsins eins og ítrekað hefur verið bent á í þessari umræðu, ekki aðeins í dag heldur fyrr, að víða um landið eru smá og dreifð byggðarlög sem stunda mikilvæga starfsemi. Raunar er það svo að öll sú starfsemi sem þar er stunduð, hvort sem er landbúnaður, ferðaþjónusta eða raunar opinber þjónusta og allt þar á milli, á jafnvel og ekki síður undir því að fjarskiptaþjónusta sé hröð, góð og við sama verði og annars staðar, en í stærri sveitarfélögum þar sem er kannski skemmra á milli.

Í því samhengi vil ég sérstaklega óska þess að hæstv. samgrh. upplýsi fyrir lok umræðunnar hvernig öllum landsmönnum, hvar sem þeir búa, verði tryggður jafntryggur aðgangur að meginflutningsneti Landssíma Íslands hf. til fjarskipta með hefðbundnum símtölum og gagnaflutningum. Hvernig þeim verði tryggt jafnt verð á fjarskiptaþjónustu um meginflutningsnetið og hvernig verður tryggður jafn kostnaður við að tengjast því.

Þetta þrennt hefur verið mjög vakandi í umræðunni, ekki aðeins okkar stjórnmálamanna, heldur almennings. Og þetta eru eðlilegar spurningar hjá þeim sem eru fjarstaddir þegar ákvarðanir verða teknar um mál eins og þetta.

Það er gríðarlega mikilvægt, herra forseti, að Ísland standi við skuldbindingar um samskipti og mótun samkeppnismarkaðar sem það hefur þegar samið um við grannríkin og hefur raunar gefið borgurum sínum vilyrði fyrir og er það kannski enn þá veigameira.

En það skiptir öllu máli að við eigum jafnfrjálsan aðgang, allir Íslendingar, hvort sem við viljum starfa í smáum eða stórum fyrirtækjum, smáum eða stórum sveitarfélögum, að samskiptum okkar á milli og við önnur lönd. Ég hef áður nefnt að það skiptir gríðarlega miklu máli að í fjarskiptaþjónustu nútímans felst feiknarlega mikil samþætting áður ólíkrar starfsemi með tilkomu internetsins og tölvusamskiptanna. Það er gríðarlega mikilvægt að þessar tvær greinar geti átt samleið áfram og séu hvor tveggja byggðar á sambærilegum forsendum. Þar skiptir máli að þær starfi báðar í samkeppni því að aðrar greinar snerta þær sífellt fleiri. Það er eðli upplýsingasamfélagsins.

Nokkrum sinnum hefur verið nefnt í umræðunni og ekki síst eftir því sem lengra hefur dregist að málið kæmi fram, að ákvarðanir lægju fyrir um það hvaða áhrif það kunni að hafa á íslenska fjármálamarkaðinn. Ég verð að viðurkenna að ég er þeirrar skoðunar að þó að segja megi að hlutabréfaverð á markaði okkar sem og í öðrum löndum hafi farið nokkuð lækkandi að undanförnu, þá er það samt sem áður svo að á íslenskum fjármálamarkaði er þörf fyrir fleiri og fjölbreyttari verkefni, fyrir fé fjárfesta, ekki síst fyrir fé þeirra sem fara með vaxandi sparnað landsmanna, því hann er vissulega vaxandi, ekki síst vegna vel vaxandi og góðrar starfsemi lífeyrissjóðanna sem eru stækkandi.

Það verður ekki ráðið með samþykkt þessa frv. hvernig fjármunum verður varið. Það mun ráðast á fjárlögum á hverjum tíma. Ekkert um það er að finna í þessu frv. nema þær upplýsingar sem áður hafa komið fram um hvernig ætlað er að verja þessu fé.

Ég vil líka viðurkenna sérstaklega það sjónarmið mitt, herra forseti, og vil endurtaka það við þetta tækifæri, að ég tel ekki eiginlegt hlutverk ríkisins eða ríkisvaldsins að vasast í samkeppnisstarfsemi. Það er hlutverk þess að sjá til þess að samkeppnisaðilar og viðskiptavinir þeirra eigist við eftir almennum leikreglum og þær eru skapaðar með lögum sem er hlutverk ríkisvaldsins að framfylgja.

Menn hafa mikið rætt hvort ástæða sé til að undanskilja einhvern hluta af flutningsneti fyrirtækisins við þessa sölu. Það verður að viðurkennast, það liggur mjög skýrt fyrir að tæknilega er það að líkindum óframkvæmanlegt. Og þó ekki væri nema þess vegna væri rétt að leita leiða til þess að komast hjá því. Hins vegar er ljóst að vart er um að ræða mikla þörf til þess vegna þess hversu tryggilega er frágengið í lögum um fjarskipti að allir aðilar á þessum markaði, allir notendur hvar sem þeir eiga viðskipti fá jafnan flutning um allt netið. Þannig skil ég lögin og ég vænti þess að svar hæstv. samgrh. síðar muni staðfesta þetta.

Þess verður þó að geta að eftir því hvernig menn hafa rætt þetta efni, talað um grunnnet, er næsta ljóst að þeir eru afar fáir að tala um sama hlutinn. Enginn virðist vera sammála skilgreiningu nefndar um einkavæðingu og afskaplega fáir eru nákvæmlega sammála um það hvað þeir eiga við.

Í þingsölum hafa í dag komið fram nokkrar skýringar í máli manna. Engin af þeim er nákvæmlega í samræmi við það sem fram kemur í skýrslunni sem er fylgiskjal með þessu frv., engin þeirra.

Það verður þó að viðurkennast, herra forseti, að í þessu máli og í þessari umræðu hefur komið fram eins og oft áður að vinstri menn, sem samt sem áður eru skoðanabræður þeirra þar sem þeir hafa komist að og leggja mjög mikið upp úr að setja lög um alla hluti, vildu víða þar sem þeir fengu að ráða koma á, ekki aðeins lögríki heldur lögregluríki, þeir treysta samt sem áður ekki lögum. Þeir treysta engu nema handaflinu. Það eru þeirra áhyggjur í þessu máli eins og mörgum öðrum sem hafa verið byggð á sömu hugmyndum, að færa starfsemi til einkaaðila og bjóða henni að starfa við samkeppni.

Menn hafa í orðum sínum til þess að vara við þessu máli líkt því við Microsoft-málið í Bandaríkjunum. Ég verð að viðurkenna að ég tel þau gjörólík. Microsoft hafði engum flutningsnetum yfir að ráða, aðeins hugbúnað.

Menn hafa líkt landsháttum á Íslandi við landshætti í Danmörku eða önnur ríki þar sem vegalengdir á milli byggðarlaga eru allt aðrar, þéttbýlisstaðir öðruvísi, skemmra á milli byggða og nánast ekki sambærilegt hvað það varðar.

En mér finnst þó skipta máli, herra forseti, í þessu eins og í fleiri greinum að ef menn hafa áhyggjur af því að það leiði til einokunar eða fákeppni verður einokun ekki að úrræði til þess að tryggja samkeppni. Það verður aðeins gert með samkeppni og almennum traustum leikreglum, eðlilegu eftirliti og þá þar með sæmilega burðugum eftirlitsstofnunum.