Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 19:00:03 (7199)

2001-05-02 19:00:03# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[19:00]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Hv. síðasti ræðumaður, Svanfríður Jónasdóttir, vitnaði líka til frv. sem hefur verið dreift hér í dag, frv. til raforkulaga. Og það er kannski ástæða til að ég hefji mál mitt þar. Þar eru lagðar til mjög miklar og grundvallarbreytingar á því hvernig staðið er að dreifingu á raforku í landinu og má að mörgu leyti setja samasemmerki á milli þess sem hv. þingmenn margir hverjir hafa talað hér um, að dreifikerfi Landssímans eigi að vera sjálfstætt, en samkeppnishlutinn eigi að vera jafn að aðgangi á dreifikerfið.

En frv. til raforkulaga, og ég vil gera það að mínu máli, er byggt á tilskipun frá Evrópusambandinu sem er til orðin vegna þess að í Evrópu er allt önnur staða en á Íslandi varðandi raforkumál. Evrópusambandslöndin standa frammi fyrir því að þar er framleitt í sjálfstæðum einingum miklu meira en Evrópusambandsríkin þurfa á að halda, þannig að Evrópusambandstilskipunin er í grundvallaratriðum viðleitni sambandsins til þess að gíra saman raforkukerfi svæðanna, landanna, þannig að það megi framkalla sparnað.

Eins og í svo mörgu öðru gilda allt önnur sjónarmið fyrir þetta afmarkaða svæði Íslands í þessu tilliti og ég vil setja samasemmerki á milli raforkuframleiðslunnar og að vissu leyti Símans í því sambandi. Hvað varðar raforkuna erum við með algjörlega sjálfstætt raforkukerfi. Og það hefur komið margsinnis í ljós í umræðum hvað varðar okkur í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að við undruðumst að ríkisstjórnin skyldi ekki fara fram á sérbókun eða sérundanþágu fyrir Íslendinga til þess að þurfa ekki að fara í þessar breytingar.

Núna kemur í ljós að mati margra í raforkugeiranum að þetta mun einvörðungu leiða til óhagræðis þannig að raforkuflutningur og þar með raforkuverð á Íslandi mun verða töluvert dýrara en það er núna. En um það frv. til laga sem við erum að fjalla um núna, frv. til laga um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf., vil ég í byrjun koma örstutt inn á vinnubrögðin við málið.

Mér er sem þingmanni algjörlega misboðið að þetta skuli vera keyrt í gegnum þingið á þann hátt sem raun ber vitni. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa haft margar vikur til að fara ofan í þessi mál og semja sín á milli en síðan er ætlast til þess að við stjórnarandstöðuþingmenn skautum í gegnum þessa 1. umr. hér á einum degi. Þetta er miklu stærra mál en svo að það þurfi ekki að ræðast í þaula, enda kemur fram, og það er ekkert launungarmál, að ríkisstjórnarflokkarnir þurftu langan tíma til þess að koma sér saman um það hvernig ætti að standa að málum. Eins og kunnugt er hefur niðurstaðan orðið sú að vilji sjálfstæðismanna ræður, Landssíminn verður seldur í einu lagi þó svo að það hafi komið fram hjá mörgum þingmönnum framsóknarmanna að þeir vildu ekki fara þá leið, sérstaklega með þá hugsjón að leiðarljósi að tryggja stöðu landsbyggðarinnar.

Frá sjónarhóli okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði leggjum við megináherslu á að ekki verði einkavætt það sem við köllum og ég held að í flestum öðrum löndum sé kallað stoðkerfi landsins, ,,infra struktur``, þar sem öllum er þjónað. Það verði sameiginlegur ríkis- eða sveitarfélagarekstur á þeim þætti þjónustu sem á að gagnast landsmönnum öllum á jafnréttisgrundvelli.

Það þarf kannski ekki að fjölyrða um það hvers konar þjónusta þetta er. Þetta eru stoðkerfi landsins, svo sem fjarskipti, heilsugæsla, öldrunarþjónusta, þjónusta póstsins, sjúkrahúsin, skólarnir o.s.frv. Og ef við förum inn á sveitarstjórnarstigið, þá er það þjónusta eins og heitt og kalt vatn o.s.frv. og margs konar þjónusta sem sveitarfélögin veita. Þetta er stoðkerfisrekstur sem við leggjumst alfarið gegn að verði einkavæddur. Þess vegna leggjumst við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði gegn því að Landssími Íslands verði einkavæddur.

Það er nú ekki svo að Landssími Íslands sé eitthvert vandræðabarn. Hann skilar stórum tekjuafgangi, í sumum árum upp í 2 milljarða og menn eru að tala um að selja hann fyrir einhverja tugi milljarða. Hér er því um stóra mjólkurkú að ræða þannig að málið er þess eðlis að það hefði þurft lengri tíma til að ræða það á hinu háa Alþingi, minni mál hafa nú tekið lengri tíma.

Það er á allra vitorði og það viðurkenna allir hér í umræðunni að Landssími Íslands hefur fyrir margra hluta sakir verið fyrirmyndarfyrirtæki, skilað arði til ríkisins, en það sem menn tala mest um í umræðunni er að líta til framtíðar, það séu svo miklar breytingar fram undan. En Landssími Íslands hefur farið í gegnum allar þessar breytingar og allir eru sammála um það. Meira að segja þó að við séum með samanburð við útlönd þá þjónar Landssími Íslands Íslendingum mjög vel tæknilega. Verðsamanburður er okkur mjög hagstæður. Hér er mjög ódýrt að hringja.

Ef talað er um samkeppnismarkað þar sem önnur fyrirtæki koma inn, þá er ekki hægt annað en líta til lengri tíma þegar við tölum um hversu gott það er fyrir landið að hleypa samkeppni af stað. Stundum er það þannig í landi sem er 103.000 km2 að stærð og telur 280.000 sálir að að líta verður á þá sérstöðu.

Við höfum farið í gegnum einkavæðingu getum við sagt, eða hleypt samkeppninni lausri inn á þjónustuþætti við allt landið þar sem menn hafa verið með fyrirtæki sem hafa starfað í skjóli sérleyfa. Það hefur leitt af sér mjög erfiða hluti í vissum tilvikum, t.d. varðandi flugið, sem er í stórhættu um þessar mundir, þar eru mjög miklir erfiðleikar eins og menn vita. Þjónusta við landsbyggðina í kjölfar einkavæðingarinnar, þar sem menn héldu ball eða veislu um nokkurra missira skeið, fögnuðu ódýru verði á meðan fyrirtækin hlóðu upp skuldum og afleiðingin gat ekki orðið nema ein: Einhver varð að vera undir, einhver sat eftir og þó er sá sem sat eftir, Flugfélag Íslands, í mjög erfiðri fjárhagsstöðu. Og hvað leiðir það síðan af sér? Frá heimabyggð minni er málum þannig komið að fjöldi fólks er farinn að velja þá leið að keyra frekar en að fljúga, vegna þess að í kjölfar þessarar erfiðu fjárhagsstöðu vegna óeðlilegrar samkeppni var fjárhagsstaða fyrirtækjanna bara þannig að verðmiðar voru settir upp úr öllu valdi. Og til hvers leiðir það? Í fyrsta lagi leiðir það til fækkunar farþega og minnkunar á þjónustu. Það er þetta sem er svo erfitt fyrir okkur, þ.e. að útskýra fyrir mönnum að einkavæðing í stoðkerfi af því tagi sem við erum að fara út í hérna hentar ekki landi eins og Íslandi. Það þarf sérleyfi á sumum sviðum. Og það þarf ríkisrekstur á sumum sviðum ef við ætlum að byggja þetta land allt. Þannig horfir málið við okkur. Og þess vegna viljum við halda fyrirtækinu í því formi sem það er.

Með löggjöf eins og hefur verið sett um samkeppni og varðandi stöðu Landssíma Íslands er öðrum fyrirtækjum gert kleift að komast inn á þessar línur og þjóna landsmönnum eins og öllum er kunnugt um, það er því ekki það sem vakir fyrir ríkisstjórninni.

Ég hef grun um að úti á markaðnum sjái menn að ekki er hægt að vera með öll þessi fyrirtæki í símaþjónustu þegar til lengri tíma er litið, enda eru þau sum farin að safna skuldum. Í mínum huga er það megináhyggjuefni þegar ég lít til næstu missira, við skulum gefa þessu tvö, tvö og hálft ár, þá erum við komin í þá stöðu að markaðurinn sjái sér ekki fært annað en að samruni þessara fyrirtækja verði, Landssímans og þeirra fyrirtækja sem eru á svokölluðum frjálsum markaði hér. Þá er að mínu mati miklu verr af staðið en heima setið. Ég tel að þetta gæti reynst landsbyggðinni og þjónustunni við landið í heild sinni mjög erfiður biti. Og sú hugsun sem kemur nú fram, bæði í varnaglabókunum framsóknarmanna, ég vil nú skrifa þetta fyrst og fremst á þá því það hefur aldrei verið neitt launungarmál að Sjálfstfl. vildi selja fyrirtækið, sú hugsun að losa peninga til að gera þjónustuna betri í núinu, eða kannski á allra næstu mánuðum, virkar bara ekki vegna þess að eins og fram hefur komið í máli manna er þróunin svo ör að ekki þarf að líta nema til næstu tveggja, þriggja, fjögurra ára, þá getur fjárfesting upp á hundruð milljóna króna til þess að styrkja byggðirnar og möguleika þeirra verið fé sem nýtist ekki neitt. Og þá erum við komin með einkafyrirtæki sem telur sig ekki hafa nokkrum skyldum að gegna gagnvart dreifbýlinu. En þá er hugsunin þessi hjá stjórninni, þar með framsóknarmönnum, að koma eigi upp styrktarkerfi þeirra sem búa í hinum strjálu byggðum. Það er ákaflega vond tilhugsun. Það er ákaflega vond tilhugsun að inn á fjárlög þingsins þurfi að koma framlög til að þjóna með þessum hætti, með fjarskiptum, að þjóna þurfi kannski stórum hlutum landsins og að borga þurfi einkafyrirtækinu fyrir að þjóna því. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði skrifum ekki upp á slík vinnubrögð. Við viljum ekki hleypa einkaaðilum inn á þau svið sem eiga að vera þjónusta fyrir okkur öll á sambærilegum kjörum með sambærilegum aðgangi. Það er grundvallaratriði. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum ekki sett okkur á móti því að einhver verksmiðja í eigu ríkisins væri seld. Málið snýst ekki um það. Málið snýst um stoðkerfið. Málið snýst um það sem er okkur öllum nauðsynlegt til að geta lifað og hrærst í þessu landi, hvort sem við erum að tala um einkaaðila eða fyrirtækin sem eru í hinum dreifðu byggðum. Þetta er algjör forsenda þess að hægt sé að byggja landið eins og fram hefur komið í ræðum margra hér í dag. Það er algjör forsenda þess í dag að hafa aðgang að interneti, að hafa aðgang að símaþjónustu ef menn ætla að stunda viðskipti eða setja upp fyrirtæki, þó svo að þau séu á gömlum merg, engin nýtískufyrirtæki eins og hér hefur komið fram, einhver hugbúnaðarfyrirtæki. Öll fyrirtæki landsins þurfa á því að halda í dag að nota þessa þjónustu og þess vegna skilgreinum við hana sem stoðkerfisþjónustu. Það er meginmálið.

Ég hef áður skilgreint framtíðarsýn mína í svipuðum dúr og hún var gagnvart fluginu. Ég gerði mér alltaf grein fyrir því að það að bjóða flug milli Akureyrar og Reykjavíkur á sex þúsund kall væri ekki raunhæft. En samkeppnin er hörð. Og annar aðilinn vill drepa hinn, þó svo það séu bara tveir sem eru í keppninni. Hvað þá þrír eða fjórir eða fimm. Þannig virkar samkeppnin. Samkeppni í svona litlu landi, þar sem eru svona fáir sem þarf að þjóna, vill oft leiða til þess að við uppskerum eftir því. Það eru allt önnur lögmál sem gilda fyrir milljónaþjóðir, milljónaþjóðir á meginlandinu, og við erum alltaf að taka upp þeirra takta. Það er ekki rétt fyrir Ísland varðandi stoðkerfismál. Það er ekki rétt hugsun. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum ekki lagst gegn því að venjuleg viðskipti séu rekin á þeim viðskiptagrunni sem menn eru sammála um, en ekki stoðkerfismál. Það er grundvallaratriði.

Eins og ég var að lýsa gekk ballið í fluginu í nokkur missiri. Annar dúkkaði undir, hinn var með mjög slæma eiginfjárstöðu. Verð miðanna rýkur upp úr öllu valdi. Leggurinn á Akureyri er orðinn eins dýr og fyrir fólk á höfuðborgarsvæðinu að fara til útlanda. Þetta er uppskera sem ég vil ekki sjá. Þetta getur orðið staðan innan örfárra missira. Mér finnst menn ekki hafa haft neina tilburði til þess að horfa fram í tímann og sjá til hvers þetta leiðir. Einkavæðing skal það vera hvernig sem útreiðin verður.

[19:15]

Ég ber virðingu fyrir þeim sem segja sem svo, þó að það sé ekki sagt oft hér úr þessum ræðustóli: Við viljum kerfisbreytingu til einkavæðingar og markaðshyggju og það verður bara að hafa sinn gang hver fórnarkostnaðurinn verður. Þetta segja menn. Þetta segja margir sjálfstæðismenn, íhaldsmenn, í tveggja manna tali. Það er hugsun þeirra að fórnarkostnaðurinn sé svo og svo mikill við að umbreyta og umbylta samfélaginu, frá jafnaðarmennsku, félagshyggju, yfir í hart markaðsvætt samfélag. Þeir sem ekki borga sig mega éta það sem úti frýs. Engir tilburðir til þess að hafa yfirsýn eða heildarmetnað yfir það hvernig land okkar á að virka, markaðurinn skal ráða.

Það eru þessi sjónarmið sem við leggjum til grundvallar, virðulegi forseti, þegar við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði boðum að við munum greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi. Okkur hugnast ekki aðferðin og við munum greiða atkvæði gegn þessu frv.

Við viljum ekki markaðsvæðingu Landssímans. Við teljum að við höfum fært mörg rök fyrir því að það eigi ekki að gera það. Raunar þarf ég kannski ekki að mæla fyrir helstu rökunum vegna þess að allir stjórnarsinnar --- allir sem hafa talað í dag hafa rómað fyrirtækið. Allir. Vel rekið. Mjög vel tæknivætt. Gefur arð. Ódýrt. Hvernig stendur þá á því að það þarf að selja fyrirtæki sem þannig er statt? Kannski væri maður til viðræðu um það ef við værum með fyrirtæki sem væri gjörsamlega á afturfótunum með alla þjónustu sína. Illa rekið. Þyrfti framlög úr ríkissjóði. Kostaði mikið o.s.frv. En það er nú öðru nær. Er það ekki þannig, virðulegi forseti, að það er verið að selja mjólkurkýrnar, og hefur verið gert um nokkurt skeið, til að gera ríkisreksturinn fallegri um stund? En það virkar ekki til lengdar að selja fjölskyldusilfrið. Ég fullyrði að sá glæsilegi áratugur sem menn voru að stilla upp og róma við afmæli hæstv. forsrh. byggir ekki á glæsilegri stjórnsýslu. Hann byggir á því að samfélagið var þannig statt að hér voru til gríðarlegar eignir sem menn hafa hamast við að selja til þess að rétta af stöðu ríkissjóðs.

En þetta ball tekur enda. Hvar ætla menn að enda? Hvar ætla menn að enda veisluna? Að vísu er ýmislegt til að selja enn þá. Það eru tveir bankar sem er hægt að selja. Það er hægt að selja Landssímann. En ætla menn að staldra við þar? Hvenær ætla menn að taka á því hvernig á að heyja hina eiginlegu stjórnsýslu í landinu með þeim hugsjónum sem við höfum um það hvernig við ætlum að lifa hér? Eða ætla menn bara að halda ballinu áfram og fara í að selja sjúkrahúsin? Og selja skólana? Og selja ráðhúsin? Og selja hitaveitur sveitarfélaganna? Og selja kaldavatnsveiturnar? Það er hægt að halda svona balli áfram enn um sinn. En þessi dans er aðeins stiginn vegna þess að samfélagið Ísland var auðugt. Á samfélagslegum grunni voru rekin mikil og stór fyrirtæki sem er verið að selja. Við erum andvíg svona ráðahag og sérstaklega á þessum grunni varðandi stoðkerfismálin. Við erum andvíg því og munum greiða atkvæði á móti því. Þetta eru meginröksemdafærslurnar. Pólitík byggist á hugsjón. Pólitík byggist ekki á því að menn komi upp og segi: Hvort fáum við 30 eða 32 milljarða? Á að selja núna? Verður markaðurinn þannig að það eru 4 milljörðum meira eftir tvo mánuði o.s.frv.? Það er ekki málið. Í prinsippmálum verða menn að taka afstöðu í meginatriðum hvernig á að reka þetta samfélag. Það er ekki gert með þessum hætti.