Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 20:34:52 (7213)

2001-05-02 20:34:52# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[20:34]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hafi ég sagt að engar reglur væru, ég tel mig reyndar ekki hafa sagt það en taldi mig hafa sagt gæðakröfur og skilgreindar gæðakröfur til þeirra þátta, hafi ég sagt reglur þá eru vissulega þarna reglur á ferðinni og ákveðnar gæðakröfur. En fjarri því að þær séu til fullnustu. Ég man nú ekki þennan texta svo utan að, herra forseti. Mig minnir t.d. að á einum stað standi að varðandi almenningssíma og símklefa og annað því um líkt vítt og breitt um landið, þá skuli Póst- og fjarskiptastofnun setja um það reglur hvar þeir skuli vera. Og aðrar slíkar gæðakröfur hef ég ekki rekist á t.d. varðandi viðbragðsflýti við bilunum, við slíku eftirliti og öðru sem hlýtur náttúrlega að skipta dreifbýlið meginmáli. Því að út um land hafa einmitt verið alveg fram til þessa viðgerðaraðilar í startholunum til þess að grípa inn, en því hefur svolítið hrakað upp á síðkastið. Ég minnist þessara tveggja atriða, herra forseti, þar sem ætlast er til að komi skilgreindar gæðakröfur inn.