Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 20:38:25 (7215)

2001-05-02 20:38:25# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[20:38]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að heyra það sem mér skilst á tón hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar að hann sjái kannski eftir því að hafa farið svona harkalega með málið.

En það duldist engum þegar hv. þm. var að færa rök fyrir sölu Landssímans að ein rökin voru þau að ríkisfyrirtæki væru svifasein og stirðbusaleg og væru með slæma ímynd. Ég veit ekki á hvers konar vinnustað hv. þm. hefur unnið eða þekkir ef ímynd fyrirtækisins er ekki fólgin í því fólki sem þar vinnur. A.m.k. er það klárt í mínum huga og öllum að ímynd fyrirtækis er náttúrlega ímynd starfsfólksins.

Ég vil frekar telja að það hafi verið ákveðin rökþrot þótt ég skildi það nú ekki þannig, ég skildi þetta hreinlega sem meiningu hv. þm. að ein rökin fyrir því að betra væri að selja fyrirtækið væru þau að þá fengi það svo miklu betri ímynd og þá væri það ekki eins svifaseint o.s.frv.

Ég vil ítreka það að ímynd fyrirtækisins er starfsfólkið sem þar vinnur og starfsfólk Landssímans hefur skilað einmitt afar góðu starfi að mínu mati í að byggja upp fjarskiptanet í erfiðu landi á undanförnum árum og áratugum og það væri síst að færa það sem rök fyrir því að selja þetta fyrirtæki.