Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 21:04:32 (7222)

2001-05-02 21:04:32# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[21:04]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Tíminn leyfir ekki að fara yfir allar mótsagnirnar sem birst hafa í ræðuhöldum stjórnarsinna í dag. Annars vegar reynt að mæra fyrirtækið Póst og síma, hrósa því fyrir góðan árangur og talað um hversu vel það hafi staðið sig í að byggja upp nútímalega fjarskiptaþjónustu á góðum kjörum. Hins vegar þarf, pólitíkunnar vegna, að koma með ræðuhöld um hversu þetta fyrirkomulag hafi verið óheppilegt, svifaseint, fyrirtækið ósjálfstætt og allt saman verið erfitt og vont. Samt var árangurinn svona góður. Þetta er ekki mótsögn, er það? Nei, nei. Svona hefur vaðallinn haldið áfram í dag og niðurstaðan auðvitað ósköp einföld. Tilgangurinn helgar meðalið. Einkavæðingin er aðalatriðið. Það skal þjóna trúnni. Setja hana ofar öllu öðru. Veruleikanum, íslenskum aðstæðum, reynslunni og því sem við okkur blasir í öllum kringumstæðum málsins er ýtt til hliðar af því menn hafa gefið sér niðurstöðuna fyrir fram.

Ég endurtek: Ég held það verði ekki sótt nein rök í það fyrirkomulag sem við bjuggum við á þessum árum, þegar hvað mest umbylting varð í fjarskiptum og tækni, miklu meiri en sú sem nú er í gangi. NMT-kerfið, GSM-kerfið, ljósleiðarinn og allt sem honum tengist voru miklu meiri bylting en sú afkastagetuaukning sem nú er aðallega um að ræða. Menn gera að mínu mati allt of mikið úr því sem einhverri eðlisbreytingu. Þetta er fyrst og fremst spurning um meiri gæði og aukin afköst.

Alla þessa hluti gat Póstur og sími ráðist í þannig að við vorum í fremstu röð. Við vorum farsímavæddasta þjóð heimsins eða númer tvö, bæði í GSM-kerfi og NMT-kerfið. Ekki var Pósti og síma meinað að gerast eignaraðili að nýjum sæstrengjum o.s.frv. Þannig verða engin rök sótt í að þetta fyrirkomulag hafi gefist illa og verið fyrirtækinu fjötur um fót. Það er bara ekki þannig.