EES-samstarfið

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 10:21:05 (7233)

2001-05-09 10:21:05# 126. lþ. 117.2 fundur 720. mál: #A EES-samstarfið# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[10:21]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Spurning mín beinist að vaxandi áhrifaleysi Íslands í EES-samstarfinu og meintum þekkingarskorti innan Evrópusambandsins á samningnum. Ég varð mjög ánægð að sjá að hæstv. forsrh. er hér og var að vona að hann gæfi sér tíma til að vera viðstaddur þessa umræðu og þessa fyrirspurn.

Þegar EES-samningurinn var gerður reyndist hann vítamínsprauta inn í íslenskt atvinnulíf og í því að snúa efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar til betri vegar eftir erfitt samdráttarskeið þó að ekki nytu eldanna þeir sem kveiktu þá. Fyrrv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson lagði áherslu á að samningurinn væri ekki endanlegur heldur lifandi samningur þar sem réttur okkar og þátttaka efldi hann, en halda yrði uppi stöðugri baráttu fyrir mikilvægi hans. Það felst því, herra forseti, mikil þversögn í yfirlýsingum hæstv. forsrh. sem talar eins og að samningurinn sem skrifað var undir, verði ávallt í sömu stöðu.

Utanrrh. hefur lýst áhyggjum vegna vaxandi tregðu Evrópusambandsins til að heimila EFTA-fulltrúunum að taka þátt í mótun reglna sem gilda eiga fyrir allt EES-svæðið og fólk sem starfað hefur á þessum vettvangi og getur tjáð sig óhindrað um stöðuna segir samninginn hafa veikst, að upphaflegir hagsmunir Evrópusambandsins af EES-samningum séu ekki lengur þeir sömu, valdahlutföll hafi breyst innbyrðis með nýjum sáttmálum og stofnunum og staða EFTA-ríkjanna hafi veikst, EES-samningurinn veiti engan rétt til upplýsinga og samráðs þegar frumvarp hefur verið lagt fyrir hina eiginlegu löggjafa, ráðherraráðið og þingið, og þekkingarskorts gæti hjá aðildarríkjunum um rétt EES-landanna, enda rík tilhneiging til að halda EFTA-löndunum utan við stefnumótunina, borið hafi á því að fulltrúum Íslands hafi verið meinaður aðgangur að nefndum Evrópusambandsins sem þeir tóku áður þátt í á grundvelli EES-samningsins, og það höfum við reyndar rætt á Alþingi.

Því vekur furðu, herra forseti, að forsrh. Davíð Oddsson noti ekki tækifærið þegar hann hittir Romano Prodi, framkvæmdastjóra Evrópusambandsins, til að taka upp við hann aukið áhrifaleysi okkar á vettvangi bandalagsins. Þess í stað stuggar hann við utanrrh. með yfirlýsingum um traustan samning sem virki vel, að við Íslendingar hefðum ekki ákvörðunarvald í málum sem aldrei stóð til að við hefðum og menn megi ekki rugla því saman við einhvern veikleika EES-samningsins, kostir EES-samningsins víkkist út við stækkun Evrópusambandsins, hafi samningurinn verið góður sé stækkun tvöföldun á jákvæðum þáttum. Um það bil orðrétt svona eru yfirlýsingar hæstv. forsrh. eftir heimsóknina til Prodis.

Herra forseti. Miðað við þá umræðu sem farið hefur fram í fjölmiðlum, miðað við þessa fyrirspurn, þá er ég afskaplega undrandi á því að hæstv. forsrh. skuli ganga hér úr sal.

En spurning mín er: Hvernig snýr utanrrh. sér að úrbótum í þessari stöðu miðað við þær spurningar sem ég hef borið fram?