EES-samstarfið

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 10:33:05 (7237)

2001-05-09 10:33:05# 126. lþ. 117.2 fundur 720. mál: #A EES-samstarfið# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[10:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Sú árátta mannanna er einkennileg að taka umsvifalaust að reyna að umskrifa söguna, jafnvel svo gott sem samtímasöguna, sjálfum sér og viðhorfum sínum í hag. Nú halda aðdáendur Evrópusambandsins hér á landi því blákalt fram að allt jákvætt sem hér hefur gerst í efnahagsmálum og lagasetningu sé EES-samningnum að þakka, alveg eins þó að það komi þeim samningi ekkert við. Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrv. utanrrh., er a.m.k. kominn í tölu hálfguða í hugum þessa fólks, ef ekki meira.

Það er líka mjög undarleg, herra forseti, sú árátta ákveðinna stjórnmálamanna að klifa sífellt á því að núverandi grundvöllur samskipta Íslands við Evrópusambandið sé að veikjast. Sjaldnast eru þó nefnd dæmi eða efnisleg atriði því til rökstuðnings.

Hverra hagsmunum þjónar það? Hvað ætla menn að vinna með slíku tali? Ef eitthvað er að fara úrskeiðis í þessum samskiptum er þá ekki viðfangsefnið að reyna að lagfæra það en lýsa því ekki stanslaust yfir að við séum í veikri stöðu, að púðrið hjá okkur sé allt blautt, að við höfum enga samningsstöðu og þetta sé allt svona óskaplega erfitt og vandasamt?

Þó svo væri, væri það væntanlega ekki mjög skynsamleg aðferð upp á samningsstöðuna að setja á linnulaus ræðuhöld um slíkt, herra forseti. Þetta skýrir sig nokkuð sjálft.