EES-samstarfið

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 10:34:06 (7238)

2001-05-09 10:34:06# 126. lþ. 117.2 fundur 720. mál: #A EES-samstarfið# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., TIO
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[10:34]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Það stendur upp á þá aðila sem halda því fram að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið valdi því í eðli sínu að miklir samskiptaerfiðleikar séu komnir upp milli Evrópusambandsins og EFTA/EES-ríkjanna að nefna dæmi --- ekki síst þegar því er haldið fram að íslenskum hagsmunum sé ógnað í þessu samstarfi.

Eins og skýrsla hæstv. utanrrh. hefur varpað skýru ljósi á þá gengur þetta samstarf ágætlega og ekki er hægt að benda á nein dæmi um meiri háttar erfiðleika sem hafi komið upp í þessu samstarfi. Ég hygg að þingmönnum ætti að vera ljóst að þegar vitnað er í vandamál í sambandi við nefnd sem fjallaði um sjávarútvegsmál þá hafði það vandamál bókstaflega ekkert með veikingu EES-samningsins að gera.

Ég vil geta þess að oft er talað um að það hafi veikt EES-samninginn hvernig aðkoma okkar að málum er, sem sagt á fyrri stigum málsins en ekki þegar þau eru komin fyrir ráðherraráðið. Þetta var ljóst frá upphafi og þær aðstæður hafa ekki breyst.

Einnig er ljóst að þau lönd sem gengu úr EFTA inn í ESB höfðu ákveðið það fyrir fram því þegar samningurinn var gerður þá vissu allir það. Hér er því enn eina ferðina verið að lýsa aðstæðum sem voru löngu ljósar þegar samningurinn var gerður.