Þjóðlendur

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 10:45:16 (7242)

2001-05-09 10:45:16# 126. lþ. 117.3 fundur 689. mál: #A þjóðlendur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[10:45]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Aðeins til upprifjunar vil ég nefna það að lögin um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta tóku gildi samkvæmt ákvörðun Alþingis 1. júlí 1998. Skv. 2. gr. laganna fer forsrh. með málefni þjóðlendna sem ekki eru lögð til annarra ráðuneyta með lögum.

Samkvæmt 11. gr. laganna fer fjmrh. með fyrirsvar fyrir hönd ríkisins og stofnana á vegum þess vegna krafna um eignarréttindi innan þjóðlendna og við úrlausn um hvort land teljist til eignarlands eða þjóðlendu.

Í þessu fyrirsvari felst að fjmrh. setur fram kröfur vegna þjóðlendnanna og á sama hátt setja viðkomandi landeigendur eða aðrir hagsmunaaðilar fram kröfur fyrir sína hönd sbr. 10. gr. laganna.

Til þess að úrskurða um mörk eignarlanda og þjóðlendna var með lögunum sett á laggirnar sérstök nefnd, óbyggðanefnd. Samkvæmt 7. gr. laganna er hlutverk óbyggðanefndar:

a. Að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda.

b. Að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur.

c. Að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.

Að því er varðar fyrstu spurningu hv. þm. þá er spurt hvenær sé að vænta úrskurðar óbyggðanefndar um mörk þjóðlendna í Árnessýslu. Ég hygg að hv. þm. hljóti að vita að þessari spurningu get ég ekki svarað. Óbyggðanefnd heyrir ekki undir fjmrh. Hún er sjálfstæð úrskurðarnefnd sem starfar á ábyrgð forsrh., en skv. 18. gr. þjóðlendulaganna skal hún birta úrskurði fyrir þeim aðilum sem lýst hafa kröfum og þeim sem úrskurðað er að eigi réttindi á viðkomandi svæði. Jafnframt skal úrdráttur úr úrskurðum nefndarinnar birtur í Lögbirtingablaðinu ásamt uppdrætti.

Í lögunum er ekki kveðið á um úrskurðarfresti nefndarinnar og gilda því almennar reglur um málshraða í þeim efnum. Ekki liggja fyrir formlegar upplýsingar frá óbyggðanefnd um hvenær úrskurða sé að vænta í Árnessýslu. Hins vegar kemur fram á heimasíðu nefndarinnar að gert sé ráð fyrir að fyrstu úrskurðir verði kveðnir upp fyrri hluta ársins.

Önnur spurning hv. þm. lýtur að því hvort til greina komi að fresta nú þegar frekari kröfugerð á öðrum landsvæðum uns þessi úrskurður liggur fyrir. Ég held að þingmanninum hljóti líka að vera kunnugt og liggja í augum uppi að yfir því höfum við í fjmrn. ekkert vald. Það er nefndarinnar sjálfrar að taka ákvörðun um hvaða svæði hún hyggst taka til meðferðar. Vísa ég þar til 10. gr. laganna. Þegar nefndin hefur ákveðið að taka svæði til meðferðar tilkynnir hún fjármálaráðherra ákvörðun sína og skal veita minnst þriggja en mest sex mánaða frest til að lýsa kröfum ríkisins um þjóðlendur á svæðinu. Að því loknu er öðrum þeim sem hafa hagsmuna að gæta veittur sambærilegur frestur til að lýsa kröfum sínum. Síðan er það óbyggðanefndin sem úrskurðar í málinu á grundvelli þeirra gagna sem aðilar málsins hafa lagt fram til stuðnings kröfum sínum eða á grundvelli sjálfstæðra rannsókna.

Eins og kom fram í máli þingmannsins hafa kröfur verið settar fram í Árnessýslu af hálfu þeirra aðila sem telja sig þar hafa hagsmuna að gæta og aðilar málsins hafa flutt þetta mál fyrir óbyggðanefndinni og jafnframt farið þar í vettvangsrannsóknir. Fjmrh. hefur einnig lýst kröfum í Austur-Skaftafellssýslu og nú fyrir tæpum hálfum mánuði var einnig gengið frá kröfum varðandi Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu í samræmi við tilkynningu óbyggðanefndar þar að lútandi. Ég geri ráð fyrir því að nefndin birti upplýsingar um þá kröfugerð í Lögbirtingablaðinu innan tíðar.

Þess vegna er alveg ljóst að það er ekki á forræði fjmrn. að taka ákvörðun um það hvaða svæði verði tekin til meðferðar hjá óbyggðanefnd eða taka ákvörðun um það hvort málum verði frestað með þeim hætti sem fyrirspyrjandi spurði um. Þess vegna er líka fráleitt hjá honum að halda því fram að ríkisstjórnin hafi með einhverjum sérstökum ákvörðunum ákveðið að leggja fram sérstakar kröfur áður en úrskurður kæmi fram. Þetta er algjörlega fráleitt og kemur bara upp um það að hv. þm. hefur ekki kynnt sér efnisatriði þessara laga.

Síðan er spurt hvort til greina komi að endurskoða frá grunni vinnubrögð við framkvæmd laga um þjóðlendur og móta nýjar verklagsreglur.

Það eru engin fyrirmæli í þjóðlendulögunum um það hvernig haga skuli kröfugerð enda fjalla lögin hvorki um efnisrétt né sönnunarreglur varðandi eignarrétt. Kröfugerð ríkisins er hagað þannig að sem best samrýmist þeim dómafordæmum og fræðikenningum sem þekkt eru varðandi eignarhald á þeim landsvæðum sem um er að tefla. Enn fremur er að sjálfsögðu leitast við að gæta samræmis í kröfugerð varðandi einstök kröfusvæði.

Löggjafarvaldið, Alþingi, hefur tekið ákvörðun um málsmeðferðarreglur varðandi ákvörðun marka þjóðlendna og eignarlanda. Vera má að lögin hafi hreyft við óvissuatriðum sem legið hafa niðri um skeið en hlutu þó að koma upp fyrr eða síðar. Þjóðlendulögin hafa hins vegar ekki hreyft við þeim efnisrétti eða reglum um sönnunarbyrði sem giltu fyrir gildistöku þeirra.

Síðasta spurningin snýst um það hvort til greina komi að afturkalla kröfur sem þegar hafa komið fram varðandi Austur-Skaftafellssýslu og varðandi þá væntanlega líka Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu ef úrskurður óbyggðanefndar verður fjarri þeirri kröfugerð sem ríkið hefur sett fram.

Þessari spurningu er að sjálfsögðu ekki hægt að svara. Auðvitað verður fyrst að taka afstöðu til þess hvernig menn bregðast við kröfunum að því er varðar Árnessýslu. En auðvitað munu menn taka ríkt tillit til þeirra grundvallarsjónarmiða sem fram koma í úrskurði óbyggðanefndarinnar og þá er að sjálfsögðu ekki hægt að útiloka að sú kröfugerð sem nú hefur verið lögð fram verði tekin upp að nýju. Ég vil undirstrika það.