Þjóðlendur

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 10:56:22 (7246)

2001-05-09 10:56:22# 126. lþ. 117.3 fundur 689. mál: #A þjóðlendur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[10:56]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er misskilningur að ég sé hvumpinn yfir því að svara hér fyrirspurnum sem til mín er beint. Ég er bara hvumpinn yfir því ef menn skilja ekki það mál sem þeir eru að spyrja um eða þau lög sem þeir eru að vitna í.

Ég hef margþurft að útskýra það hér fyrir hv. þm. að óbyggðanefndin starfar sjálfstætt. Og hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson segir: ,,Ja, geturðu ekki talað við þjóðlendunefndina og beðið hana um að taka fyrst eitthvað annað svæði en það sem hún hefur ákveðið?`` Nei, það er ekki hægt. Nefndin ræður sér sjálf í þessu efni. Það er hún sem setur okkur skilyrði og skilmála og gefur okkur tímafresti, en ekki öfugt, og ákveður hvaða svæði á að taka fyrir. Þannig eru nú bara lögin eins og þau voru samþykkt á hinu háa Alþingi.

Tilgangur laganna var að fá botn í gamlan ágreining um það hvar almenningseign endar og hvar einkaeign tekur við að því er varðar land á Íslandi. Og það á ekki bara við um miðhálendið. Það getur átt við um önnur landsvæði þar sem slík óvissa er fyrir hendi. Og þá snýst þetta um það að aðilar reyni að sanna eignarrétt sinn og menn láti reyna á kröfur sínar fyrir þessari nefnd sem síðan mun kveða upp úrskurði sem menn geta þá eftir atvikum, ef þeir kjósa, áfrýjað til dómstóla eins og eðlilegt er hér á landi ef þeir eru ekki ánægðir með þá úrskurði. Og þann rétt á bæði ríkið sem kröfuaðili fyrir hönd eigenda þjóðlendnanna, þ.e. almennings í landinu, og svo þeir landeigendur sem þarna eiga hugsanlega hlut að máli.

Þessi lög voru auðvitað samþykkt til þess að koma í veg fyrir framtíðarágreining. Við vitum alveg hvernig þetta hefur verið hér í gegnum árin og aldirnar með landamerkjadeilur og ágreining um það hver á hvað að því er varðar land á Íslandi. Hugmyndin með þessum lögum var auðvitað sú að reyna að binda enda á það í eitt skipti fyrir öll. Og það er rétt hjá hv. þm. Karli V. Matthíassyni að eignarréttinn í landinu ber að virða. En það verður að túlka það þannig að menn verði að geta fært sönnur á eignarrétt sinn og um það snýst þetta mál. Þetta gengur út á það að ef menn geta ekki sannað eignarrétt sinn til lands, ef enginn á landið, þá kemur almenningur og ríkið þar til skjalanna.