Reikningsskil og bókhald fyrirtækja

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 10:58:49 (7247)

2001-05-09 10:58:49# 126. lþ. 117.4 fundur 691. mál: #A reikningsskil og bókhald fyrirtækja# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[10:58]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Hæstv. forseti. Verðbólgureikningsskil sem notuð eru við uppgjör fyrirtækja hér á landi tíðkast hvergi í nálægum löndum sem við berum okkur saman við. Fram hefur komið hjá stjórnendum fjölmargra íslenskra fyrirtækja að afnám verðbólgureikningsskilanna sem við höfum haft undanfarin 20 ár sé eitt aðalhagsmunamál þeirra um þessar mundir.

Fram hefur komið hjá fyrrverandi stjórnarformanni Verðbréfaþings Íslands, Tryggva Pálssyni, að eitt aðalmarkmið aðildar Verðbréfaþings að NOREX-samstarfinu hafi m.a. verið að greiða fyrir viðskiptum erlendra aðila með innlend verðbréf en einnig hefur komið fram að eitt af þeim atriðum sem torvelda slík viðskipti sé einmitt umrædd verðbreytingarfærsla í reikningsskilum íslenskra fyrirtækja. Hún er erlendum fjárfestum og greiningaraðilum mjög framandi og kallar á frekari útskýringar og aukna vinnu sem dregur úr áhuga erlendra fjárfesta á viðskiptum með innlend verðbréf.

Þess má geta að svokallað reikningsskilaráð hefur í tvígang lagt það til við fjmrn. að horfið verði frá verðbólgureikningsskilum í uppgjörum fyrirtækja. Þess vegna er fyrsta spurning mín eftirfarandi:

Er ráðherra hlynntur því að horfið verði frá verðbólgureikningsskilum í uppgjöri fyrirtækja?

Önnur spurning mín til hæstv. fjmrh. er þessi:

Er ráðherra hlynntur því að íslensk fyrirtæki geti gefið út hlutabréf í erlendri mynt og skráð þau á Verðbréfaþingi Íslands?

[11:00]

Um þetta er spurt vegna þess að fram hefur komið að ýmsir stjórnendur stærri fyrirtækja, sem skráð eru á Verðbréfaþingi Íslands en eru með mestallar tekjur sínar og gjöld erlendis, telja að þetta sé vænlegur kostur sem þeir vilja gjarnan hafa möguleika á.

Herra forseti. Það eru augljósir hagsmunir íslenskra fyrirtækja í mikilli alþjóðlegri starfsemi, sem helst vilja halda því til streitu að hafa áfram heimilisfang sitt hér á landi þó að starfsemin sé að mestu erlendis og tekjur þeirra og gjöld að stærstum hluta frá útlöndum, eins og ég hef áður sagt. Það eru því hagsmunir þessara fyrirtækja að geta gert rekstur sinn upp í erlendri mynt, t.d. í dölum eða evrum. Þetta atriði mun því auka samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og ekki veitir af. Síðasta spurningin til hæstv. fjmrh. er um þetta atriði og hljóðar svo:

Er hæstv. ráðherra hlynntur því að íslensk fyrirtæki sem hafa umfangsmikil viðskipti erlendis geti valið um að færa bókhald og semja ársreikning sinn í erlendri mynt eingöngu?

Herra forseti. Síðan þessi fyrirspurn var lögð fram, fyrir 3--4 vikum, hefur margt gerst á íslenskum markaði, t.d. mikil gengislækkun. Varðandi verðbreytingarfærsluna þá er það auðvitað hárrétt að fyrir henni voru ákveðin rök. Með henni fengust nákvæmari reikningsskil og á tímum mikillar verðbólgu hefur þetta gefið betri mynd af afkomu fyrirtækjanna. Þess vegna er það því miður svo, miðað við stöðuna í dag þar sem gengið hefur fallið um 20% frá áramótum miðað við dollar og verðbólgan er aftur komin á skrið, að þessi hluti spurningar minnar, sem var sjálfsögð fyrir 3--4 vikum, er nánast úreldur í dag.