Úrbætur í málefnum fatlaðra

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 11:37:45 (7261)

2001-05-09 11:37:45# 126. lþ. 117.7 fundur 605. mál: #A úrbætur í málefnum fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[11:37]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Félmrn. sendi skýrsluna öllum ráðuneytum sem tillögurnar beindust að og var vakin sérstök athygli á því hvar í skýrslunni tillögur til viðkomandi ráðuneyta væri að finna. Þessi ráðuneyti voru menntmrn., dóms- og kirkjumrn. og samgrn. Menntmrn. svaraði um hæl og vakti athygli á samantekt um aðgengi fatlaðra að menningarstofnunum sem unnin var á vegum ráðuneytisins á árinu 1999. Samgrn. sendi skýrsluna til Ferðamálaráðs Íslands og Vegagerðarinnar til umfjöllunar. Vegagerðin sendi greinargerð um möguleika hreyfihamlaðra til að nýta sér ferjur og hópferðabifreiðar. Tillögur sem beindust að dómsmrn. snerust um möguleika fatlaðra til að taka þátt í kirkjulegu starfi. Þetta er svarið við fyrstu spurningunni.

Við 2. og 3. spurningu er því til að svara að mikilvægt er að taka það strax fram að niðurstöður starfshópsins beinast aðeins að litlu leyti að verkefnum sem heyra undir félmrn. Mörg verkefnanna eru hluti af daglegum skyldum stofnana sem ber að veita öllum landsmönnum þjónustu. Tillögur starfshópsins voru því ekki sérstaklega kynntar fulltrúum sveitarfélaganna í tengslum við undirbúning þess að sveitarfélögin tækju að sér þjónustu við fatlaða, enda snúast þær að miklu leyti um aðra þjónustu en þá sem heyrir undir lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og lög um málefni fatlaðra.

Félmrn. hefur gert ítarlegt kostnaðarmat vegna nýs frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þetta kostnaðarmat var unnið af sérstakri nefnd með aðilum frá fjmrn. og eins frá sveitarfélögunum auk félmrn. Þetta kostnaðarmat tekur annars vegar til áætlaðs kostnaðar vegna þjónustu við fatlaða, bæði þeirra sem fá þjónustu í dag svo og þeirra sem eru á biðlistum, og hins vegar er áætlaður sá kostnaður sem felst í nýjum skyldum vegna endurskoðunar laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Tekið var tillit til þess við kostnaðarmatið að langveik börn og fjölskyldur þeirra skuli eiga sama rétt til þjónustunnar og fötluð börn. Þetta kostnaðarmat hefur verið kynnt sveitarfélögunum.

Niðurstöður starfshópsis um tómstundir fatlaðra og þátttöku í menningarstarfsemi ná yfir mun fleiri svið en hið nýja frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga fjallar um. Hins vegar er rétt að geta þess að nokkur atriði sem lögð eru til í skýrslunni eru betur tryggð í hinu nýja frv. en í gildandi lögum og er tekið tillit til þess kostnaðar í fyrrgreindu mati. Sem dæmi um það er aðstoð til þeirra sem á þurfa að halda til að sækja tómstundastarf við hæfi og ríkari áhersla er lögð á fræðslu og leiðbeiningar sem á að standa þeim til boða sem veita liðveislu og heimaþjónustu.

Hvað varðar tillögur sem snúa að öðrum sviðum en undir félmrn. heyra getur ráðuneytið einungis hvatt til þess að tillögurnar séu teknar til athugunar hjá þeim aðilum sem þær beinast að og var það m.a. tilgangurinn með því að kynna skýrsluna öðrum ráðuneytum á sl. ári. Ég tel eðlilegt að koma skýrslunni betur á framfæri við hlutaðeigandi aðila, þar með talin sveitarfélög. Í skýrslunni er að finna ýmsar tillögur sem þau gætu stuðst við hvað varðar bætta þjónustu án þess að þar sé eingöngu um að ræða atriði sem heyra undir gildandi lög um málefni fatlaðra.