Úrbætur í málefnum fatlaðra

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 11:43:58 (7263)

2001-05-09 11:43:58# 126. lþ. 117.7 fundur 605. mál: #A úrbætur í málefnum fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[11:43]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það liggur fyrir hvaða kostnaður leggst á sveitarfélögin með félagsþjónustufrv. og það frv. er m.a. samið í ljósi þess að þessi skýrsla er til. Hnykkt er á ýmsum atriðum í félagsþjónustufrv. sem getið er um í skýrslunni og það er betur tryggt þar.

Þá vil ég einnig geta þess að fylgifrv. er með félagsþjónustufrv., þ.e. frv. til laga um réttindagæslu fatlaðra sem á að tryggja og reka á eftir því að staðið sé að þessum málum með fullnægjandi hætti.

Við leituðum eftir því við fjárlagaskrifstofu fjmrn. að fá kostnaðarmat á tillögum í skýrslunni en fjárlagaskrifstofan treysti sér ekki til að gera það og segir í bréfi frá henni, með leyfi forseta:

,,Vandamálið við að kostnaðarmeta skýrsluna er fyrst og fremst fólgið í því að skilgreina og meta afmarkaðar tillögur. Ekki er komið auga á að lagt sé til að ríkið taki upp ný verkefni. Skyldurnar eru fyrir hendi, t.d. sbr. 7. gr. laga um málefni fatlaðra. Víða er lagt til að þjónusta sé aukin en það er erfitt að meta það af skýrslunni í hve miklum mæli sú þjónustuaukning eigi að vera. Mér sýnist að sú aukning eigi að vera að mestu leyti á sviði sveitarstjórnarmála sem við kostnaðarmetum ekki. Enn fremur er mjög erfitt að meta af texta skýrslunnar hvort lagt sé til að ríkissjóður taki þátt í kostnaði verkefna þeirra sem talin eru upp í skýrslunni.``