Atvinnuleysisbætur

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 11:46:20 (7264)

2001-05-09 11:46:20# 126. lþ. 117.8 fundur 700. mál: #A atvinnuleysisbætur# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[11:46]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Fyrir nokkru bárust mér spurnir af því að þroskaheftri konu hefði verið neitað um atvinnuleysisbætur þar sem hún uppfyllti ekki það ákvæði laga um atvinnuleysisbætur að geta unnið öll almenn störf. Í 2. gr. laga um atvinnuleysisbætur er skilgreint hverjir hafi rétt til atvinnuleysisbóta, hvaða skilyrðum þeir þurfi að fullnægja. Í 6. málslið þessarar greinar segir að þeir þurfi að vera reiðubúnir að ráða sig til allra almennra starfa.

Nú er það stór spurning hver er fær um slíkt, hvort það eigi við um allt það fólk sem talið er vel vinnufært þó. Ég leyfi mér að efast um að svo sé. En hvað sem því líður þá hafði þessi kona sem ég nefndi í upphafi unnið í tæpt ár hjá fyrirtæki einu en verið sagt upp vegna skipulagsbreytinga. Þá hafði hún ráðið sig á stofnun, elliheimili, en verið sagt upp eftir þrjá til fjóra daga þar sem hún réð ekki við starfið. Á þeim grundvelli var henni síðan meinað um atvinnuleysisbætur því að þetta þótti staðfesta að hún væri ekki fær um að sinna öllum almennum störfum.

Heimilislæknir konunnar hafði gefið út vottorð um að hún gæti sinnt einföldum og léttum störfum. En það dugði ekki. Var því ákveðið að kæra þessa niðurstöðu til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta sem fyrir sitt leyti frestaði afgreiðslu þessa máls samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá Landssamtökunum Þroskahjálp, en þau aðstoðuðu konuna við þessi kærumál. Samtökin hafa tjáð mér líka að óskað hafi verið eftir umsögn frá trúnaðarlækni sem að sögn Þroskahjálpar er gigtarlæknir og áhöld um hvernig hann er fær um að gefa skýrslu um það hverjir möguleikar greindarskertrar konu eru á atvinnumarkaði. Hvað sem því líður þá er þessi kona nú komin í vinnu og hefur skilað inn vottorði um að störf hennar gangi vel á nýjum starfsvettvangi.

Þetta hefur orðið mér tilefni til að beina fyrirspurn til hæstv. félmrh. um hversu algengt þetta sé. Spurning mín er eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Hve mörgum var synjað um atvinnuleysisbætur árið 2000 vegna þess að þeir uppfylltu ekki þau ákvæði laga um atvinnuleysisbætur að geta unnið öll almenn störf?``