Atvinnuleysisbætur

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 11:49:34 (7265)

2001-05-09 11:49:34# 126. lþ. 117.8 fundur 700. mál: #A atvinnuleysisbætur# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[11:49]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil í upphafi segja frá því að okkur í félmrn. hefur ekki unnist tími til þess að hafa svarið eins ítarlegt og spurning hv. fyrirspyrjanda hljóðar nákvæmlega. Ég hef ekki upplýsingar um hve mörgum hefur verið neitað en ég er með skrá yfir hve margir hafa kært. Og ég ætla að greina hér frá því.

Frá árinu 1999 til septemberloka árið 2000 hafa samtals 62 kært. 44 úrskurðir voru staðfestir en 18 felldir úr gildi. Þetta er betur brotið niður í þeirri skrá sem ég hef. Umsækjandi sagði starfi sínu lausu án gildra ástæðna í 12 tilfellum. Umsækjandi hafnaði tilboði um vinnu sem hann gat fengið fyrir milligöngu vinnumiðlunar í 23 tilfellum og reyndar í sjö tilfellum til viðbótar út árið 2000, þ.e. í 30 tilvikum á þessum tveimur árum. Í átta tilfellum sinnti umsækjandi ekki starfsleit sinni með virkum hætti. Umsækjandi uppfyllti ekki almenn skilyrði bótaréttar vegna þess að hann hafði ekki áunnið sér bótarétt eða var óvinnufær í sjö tilfellum. Í fimm tilfellum var viðkomandi umsækjandi aðili að rekstri og önnur tilfelli voru sjö. Þetta eru þau 62 tilfelli sem kærð voru á þessu tímabili og 18 af þessum 62 fengu réttingu sinna mála hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu.

Herra forseti. Ef hv. fyrirspyrjandi óskar eftir mun ég geta látið vinna nákvæmara svar með því að taka það saman á öllum vinnumiðlununum hve oft fólki hafi verið synjað. En ekki er víst að ég geti svarað því fyrir þinglok í vor.