Atvinnuleysisbætur

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 11:52:44 (7266)

2001-05-09 11:52:44# 126. lþ. 117.8 fundur 700. mál: #A atvinnuleysisbætur# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[11:52]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin og fagna því að hann skuli vilja láta fara fram úttekt á þessu máli. Mér finnst ekki öllu máli skipta hvaða daga eða hvaða vikur sú úttekt er gerð. Öllu skiptir að hún sé gerð og athygli vakin á þessu máli. Enda þótt þessar upplýsingar væru ekki tæmandi, eins og fram kom hjá hæstv. félmrh., þakka ég fyrir svör hans sem voru um margt mjög upplýsandi.

Það sem mér fannst mjög upplýsandi er í fyrsta lagi hve margir hafa þó kært, þ.e. 62. En hitt finnst mér kannski skipta mestu máli og vera umhugsunarefni fyrir úthlutunarnefndir atvinnuleysisbóta, að í 18 tilvikum skuli úrskurðir þeirra hafa verið felldir úr gildi. Þetta finnst mér hið upplýsandi við svar hæstv. félmrh. og ætti að vera okkur öllum umhugsunarefni og sérstaklega þeim sem starfa í úthlutunarnefndum atvinnuleysisbótanna vegna þess að þetta bendir til þess að réttur fatlaðra er ekki virtur sem skyldi.

Ég ítreka þakkir mínar við svar hæstv. félmrh. og tel æskilegt að á þessu fari fram frekari könnun.