Tilraunaverkefnið "Atvinna með stuðningi"

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 11:58:46 (7269)

2001-05-09 11:58:46# 126. lþ. 117.9 fundur 701. mál: #A tilraunaverkefnið "Atvinna með stuðningi"# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[11:58]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Á vegum svæðisskrifstofu Reykjaness var fyrir tíu árum tekin upp sú nýbreytni að bjóða upp á atvinnu með stuðningi. Það var kallað þá, held ég, atvinna með liðveislu. Fyrir tveimur árum síðan fór í gang tilraunaverkefni hjá svæðisskrifstofu Reykjavíkur í samvinnu við Styrktarfélag vangefinna og Vinnumálastofnun og það hófst í mars 1999. Svæðisskrifstofan á Reykjanesi hefur verið í samstarfi við m.a. Kópavogsbæ um þessa nýbreytni. Hjá svæðisskrifstofunni í Reykjavík hafa þrír starfsmenn unnið við þetta verkefni í tveimur og hálfu stöðugildi. Einu stöðugildi er varið til þess á Reykjanesi.

Í desember sl. voru 118 þjónustunotendur svæðisskrifstofu Reykjaness á almennum vinnumarkaði. Þar af voru 63 í atvinnu með stuðningi. Í Reykjavík höfðu 56 manns tekið þátt í þessu tilraunaverkefni á fyrsta ári þess, þ.e. frá mars 1999 til apríl 2000. Kostnaður við það var 5 millj. hjá svæðisskrifstofu Reykjavíkur og 1 millj. hjá Styrktarfélagi vangefinna.

Helstu einkenni þessarar atvinnu eru þátttaka og þjálfun á almennum vinnumarkaði. Atvinna með stuðningi fer fram á venjulegum vinnustöðum og almennum vinnumarkaði og þjálfun sömuleiðis. Markmiðið er að þeir fái sömu laun og aðrir starfsmenn, fatlaðir fái laun í samræmi við framleiðni og gæði. Allir þættir tengdir atvinnu með liðveislu eru einstaklingsmiðaðir. Engin fyrirframkrafa er gerð um að hæft fólk sé ráðið í starfið. Þjálfunin fer fram á vinnustaðnum svo ekki er vitað fyrir fram hver vinnugetan er. Veittur er langtímastuðningur, aðstoð við að leysa starfið af hendi, við ferðir til og frá vinnustað, við félagsleg samskipti á vinnustað, aðstoð við að annast fjármál og fleira sem tengist hverjum einum. Stuðningurinn er veittur svo lengi sem viðkomandi þarf á honum að halda og hann skal vera sveigjanlegur svo unnt sé að draga úr honum eða auka hann eftir þörf einstaklingsins.

Eins og sést á þessari upptalningu byggist atvinna með stuðningi á víðtækri aðstoð við hinn fatlaða á almennum vinnumarkaði ásamt leiðbeiningum til samstarfsfólks hans og vinnuveitanda eftir því sem þörf er á hverju sinni. Fólkið vinnur við ýmis störf svo sem í leikskólum, við verslun, lagerstörf, eldhússtörf, á sjúkrahúsi, margs konar iðnaðarstörf, við skóla, ritvinnslustörf o.fl. Ákveðinn hópur þeirra sem hafa fengið atvinnu með stuðningi er ráðinn til starfa samkvæmt samningum Tryggingastofnunar ríkisins, svokölluðum öryrkjasamningum. Þessu fólki hefur farnast vel í starfi.

Almennt held ég að við getum sagt að atvinna með stuðningi hafi reynst þessu fólki afar vel. Báðar svæðisskrifstofurnar hyggjast halda þessu starfi áfram. Ekki hefur verið veitt sérstakt fjármagn á fjárlögum til þessa starfs heldur hefur ráðstöfunarfé svæðisskrifstofanna til atvinnumála verið látin renna til verkefnisins.

Vinnumálastofnun telur að þessi aðferð sé mjög áhugavert úrræði jafnt fyrir fatlaða sem ófatlaða sem eiga undir högg að sækja á almennum vinnumarkaði. Í því ljósi styrkir stofnunin verkefnið hjá svæðisskrifstofu Reykjavíkur á árinu 2000 um 2 millj. Vinnumálastofnun rekur sérstaka deild sem vinnur að atvinnumálum fatlaðra og er hún staðsett í vinnumiðlun á höfuðborgarsvæðinu. Þessi deild hefur einnig náð ágætum árangri í að útvega störf fyrir fatlaða undanfarin ár. Ljóst er að atvinna með stuðningi getur nýst öðrum en fötluðum sem eru í erfiðleikum með að fóta sig á vinnumarkaðinum.

Í frv. til nýrra laga um félagsþjónustu sveitarfélaga er lagt til að atvinnumál fatlaðra fari til Vinnumálastofnunar líkt og önnur atvinnumál. Ef frv. verður að lögum munu atvinnumál fatlaðra ekki verða aðskilin frá atvinnumálum annarra. Þetta er í fylgifrv. um atvinnumál fatlaðra sem til skoðunar er í hv. félmn.

Gera má ráð fyrir því að Vinnumálastofnun taki að sér þetta verkefni, atvinnu með stuðningi, og bjóði fleirum en fötluðum þátttöku. Starfsmenn stofnunarinnar hafa lagt sig fram um að kynna sér atvinnu með stuðningi, bæði hér á landi og erlendis og þar sem ekki er enn ljóst hvert verður endanlegt atvinnuumfang atvinnumála fatlaðra sem heyra munu undir Vinnumálastofnun hefur stofnunin eðlilega haldið nokkuð að sér höndum hvað varðar skipulag á þessari væntanlegu þjónustu við fatlaða.

Rétt er að segja frá því hér einnig að Evrópusambandið hefur ákveðið að árið 2003 verði tileinkað fötluðum og við í félmrn. höfum ákveðið að taka þátt í aðgerðum í tilefni af þessu ári, 2003, undir kjörorðinu ,,Vinnumarkaður fyrir alla``.