Ferðakostnaður aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 12:08:07 (7272)

2001-05-09 12:08:07# 126. lþ. 117.10 fundur 606. mál: #A ferðakostnaður aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[12:08]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrir rúmum tveimur árum spurði ég þáv. heilbr.- og trmrh. hvort almannatryggingakerfið tæki þátt í ferðakostnaði foreldra ungra fíkniefnaneytenda sem dveldu á meðferðarheimilum fjarri heimabyggð. Ef ekki, hvort fyrirhugaðar væru breytingar á reglugerðinni sem tryggðu að foreldrar þessara ungu sjúklinga hefðu sömu réttindi hvað þetta varðar og foreldrar þeirra barna og unglinga sem ættu við annars konar erfið veikindi að stríða. Í svari ráðherrans kom fram að ekki væri gert ráð fyrir í reglum að endurgreiðslur vegna ferðakostnaðar ættu við vegna áfengis- og fíkniefnaneyslu. Skilyrt væri að endurgreiðslan einskorðaðist við skilgreindan alvarlegan sjúkdóm eins og hæstv. ráðherra orðaði það.

Flestir ungir fíkniefnaneytendur væru í meðferð utan heilbrigðisstofnana á heimilum á vegum Barnaverndarstofu sem heyrir undir félmrn. Endurgreiðsla næði því ekki til foreldra ungra fíkniefnaneytenda. Ráðherrann sagði jafnframt í svari sínu að þessar reglur væru í endurskoðun og mikilvægt væri að samræma þær reglur sem giltu í þessum efnum innan heilbrigðisþjónustunnar og félagsmálaþjónustunnar.

Viðurkennt er að þeir sem neyta fíkniefna eiga við erfiðan sjúkdóm að stríða. Innan heilbrigðiskerfisins eru reknar viðurkenndar heilbrigðisstofnanir sem taka á þessum alvarlega sjúkdómi. En þegar um börn eða unglinga er að ræða er staðan önnur. Þau fá meðferð á heimilum sem heyra undir félmrn. og virðist svo vera að sjúkdómur þeirra njóti ekki fullrar viðurkenningar heilbrigðisyfirvalda eða almannatrygginga eins og fram kom í svari ráðherra 1999. Mér sýnist að svo sé enn ef litið er til réttinda þessara ungu sjúklinga og foreldra þeirra.

Flestir ungir fíkniefnaneytendur sem eru í meðferð vegna veikinda sinna dvelja fjarri heimabyggð. Þó er vitað að nauðsynlegt er fyrir þessa einstaklinga og aðstandendur þeirra að fjölskyldunni sé allri gert kleift að taka þátt í meðferðarstarfinu. Það getur hins vegar reynst foreldrum fjárhagslega erfitt þegar um löng ferðalög er að ræða og gistikostnaður bætist jafnvel við annan ferðakostnað. Það er löngu tímabært að viðurkenna í verki að hér er um alvarlegan sjúkdóm að ræða sem ætti í öllum tilvikum ótvírætt að falla undir heilbrigðiskerfið. Því spyr ég hæstv. heilbr.- og trmrh. um leið og ég býð hann velkominn til starfa:

1. Er meðferðarstarf fyrir unga fíkniefnaneytendur sem fram fer á heimilum á vegum Barnaverndarstofu skilgreint sem sjúkdómsmeðferð? Ef ekki, hver er ástæða þess?

2. Hver er áætlaður heildarferðakostnaður foreldra eða aðstandenda við þátttöku þeirra í meðferðarstarfi á heimilum fyrir unga fíkniefnaneytendur?

3. Hvaða reglur gilda um þátttöku almannatryggingakerfisins í ferðakostnaði foreldra eða aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda sem eru á meðferðarheimilum fjarri heimabyggð? Ef um hlutdeild almannatrygginga er að ræða í þessum kostnaði, hver er hún? Ef ekki, hver er ástæða þess, og mun ráðherra beita sér fyrir breytingum í þá veru?