Hátæknisjúkrahús

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 12:28:52 (7280)

2001-05-09 12:28:52# 126. lþ. 117.11 fundur 608. mál: #A hátæknisjúkrahús# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[12:28]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þátttöku þingmanna í þessari umræðu. Ég árétta sérstaklega að auðvitað er ég að tala um þjónustu. Við vitum það öll að tillögur Ementor, ráðgjafarfyrirtækis sem Landspítalinn hefur leitað til, eru annars vegar skammtímalausnir, þar sem litið er á það sem fyrir er, og hins vegar er horft til ársins 2020. Það þarf mjög snemma að huga að því sem hugsanlega tekur við þannig að menn fari rétt í hlutina.

Ég hef sjálf ekki tekið neina afstöðu til þess hvort byggja eigi hátæknisjúkrahús, hvar eða hvenær. En í Garðabæ hafa heyrst hugmyndir um hátæknigarð við Urriðavatn, eins konar þekkingargarð, í landi sem er reyndar í eigu Oddfellow-reglunnar. Þau mál eru á byrjunarreit en hugmyndir hafa vaknað um hátæknisvæði við Vífilsstaðavatn þar sem ýmis hátæknistarfsemi gæti tengst hátæknisjúkrahúsi. Ég held að það sé alveg ljóst að hvar sem það yrði byggt þá yrði erfitt að koma því fyrir í einhverjum bitum og trúlega ekki starfsemi af því tagi sem menn mundu velja staðsetningu úti á landi. Það er reyndar gert sums staðar. Þá eru sjúklingar fluttir með þyrlum á þau svæði.

Uppbyggingin tekur aldrei enda, það er rétt. Við eigum að halda uppi góðri þjónustu. Fyrirspurn mín byggist hins vegar á því að við ráðum ekki við margt í einu. Það hefur mikið verið lagt í sjúkrahúsin sem fyrir eru en þau eru börn síns tíma. Þess vegna þarf að huga mjög snemma að því hvert skuli stefna. Til hve langs tíma á að byggja á því sem fyrir er? Hvaða verkefni eru færð til sjúkrahúsa úti á landi sem geta tekið við verkefnum? Hvenær er eðlilegt að fara að huga að undirbúningi hátæknisjúkrahúss?