Hátæknisjúkrahús

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 12:30:59 (7281)

2001-05-09 12:30:59# 126. lþ. 117.11 fundur 608. mál: #A hátæknisjúkrahús# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[12:30]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil taka það fram varðandi þessa umræðu að framtíðarathuganir á þessum málum eru í raun tvenns konar. Fyrst er að líta yfir sviðið næstu ár. En ég tel að þörf sé á því að sá vinnuhópur sem ég hyggst skipa líti yfir miklu lengri tíma og fari yfir þá kosti sem fyrir hendi eru. Þeir eru m.a. að starfsemin verði byggð upp með svipuðum hætti og núna er, á tveimur stöðum með breyttu skipulagi, þar sem einhverjir þjónustuþættir yrðu fluttir á milli húsa eða að meginþungi uppbyggingarinnar verði á næstu árum annaðhvort á landspítalalóð eða í Fossvogi en áfram yrði nýttur húsakostur á báðum stöðum. Einnig er fyrir hendi sá kostur að byggja upp á öðrum staðnum og leggja af sjúkrahúsþjónustu á hinum. Þess má geta að landrými er fyrir hendi til stækkunar bæði í Fossvogi og við Hringbraut. Við Hringbraut er húsnæði nú um helmingi meira en í Fossvogi.

Það mætti byggja upp hátæknisjúkrahús frá grunni á nýjum stað en það er framtíðarmál. Í því sambandi hefur landið sem Landspítalinn á við Vífilsstaði komið til umræðu en einnig hefur landsvæði á Keldnaholti verið nefnt til sögunnar í því sambandi.

Ég tel að ráðuneytið verði að koma að þessum málum á þessu stigi og að vinnan þurfi að verða tvenns konar, þ.e. að fara yfir það sem við höfum í höndunum núna í þeim skipulagsbreytingum sem þurfa að fara fram og einnig líta yfir málið til lengri framtíðar. Mér finnst það mikil nauðsyn því að bygging nýs hátæknisjúkrahúss er áratugastefnumörkun.