Lagaheimild til að skylda sakborninga til dvalar á meðferðarstofnun

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 12:37:30 (7283)

2001-05-09 12:37:30# 126. lþ. 117.12 fundur 617. mál: #A lagaheimild til að skylda sakborninga til dvalar á meðferðarstofnun# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[12:37]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessa fyrirspurn en með henni er hreyft mjög mikilvægu málefni sem hefur verið til umfjöllunar í dómsmrn. um nokkra hríð. Ég vil geta þess að gripið hefur verið til ýmissa úrræða til að sporna við afbrotum ungmenna án þess að ég ætli að rekja þau í einstökum atriðum. Í þessu sambandi vil ég einnig vísa til skýrslu samstarfsnefndar ráðuneyta um unga afbrotamenn frá því í maí 1999.

Á því tímabili sem fyrirspurnin lýtur að hafa dómstólar í sex skipti beitt umræddri heimild til að binda refsidóm því skilyrði að dómþoli dvelji á meðferðarheimili. Í þremur þessara tilvika hafa átt í hlut sakborningar yngri en 18 ára. Ég ætla í stuttu máli að gera grein fyrir þessum dómum vegna þess að ég held að þeir skýri málið nokkuð vel.

Í fyrsta dóminum, sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 19. apríl 1996, var um að ræða mann á fimmtugsaldri sem sakfelldur var fyrir að aka bifreið í nokkur skipti sviptur ökurétti. Ákærði átti langan sakaferil að baki en með brotunum rauf hann skilorð reynslulausnar sem hann hafði hlotið. Í málinu lá fyrir vottorð geðlæknis sem lagði til að meðferð kæmi í stað refsingar til að losa ákærða undan vímuefnafíkn og meðhöndla andleg veikindi hans. Með hliðsjón af þessu var refsing ákærða ákveðin fangelsi í átta mánuði. Hún var m.a. bundin því skilyrði að ákærði færi til sex mánaða dvalar á geðsjúkrahúsi og dveldist að því loknu í tólf mánuði á vernduðu heimili. Hafði dómarinn gengið úr skugga um að slík meðferð stóð ákærða til boða.

Í öðrum dóminum, sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjaness þann 18. nóvember 1997, var um að ræða 21 árs mann sem sakfelldur var fyrir eignaspjöll með því að hafa lagt eld að bifreið. Ákærði hafði áður verið dæmdur fyrir íkveikju og með broti sínu rauf hann skilorð reynslulausnar. Í málinu lágu fyrir gögn sérfræðinga um áfengisfíkn ákærða og um andleg veikindi hans. Refsing ákærða var ákveðin fangelsi í 13 mánuði, þar af tíu skilorðsbundnir. Meðal skilyrða var að ákærði dveldist allt að einu ári á viðeigandi hæli ef það yrði að mati umsjónaraðila talið nauðsynlegt.

Þriðji dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 13. nóvember 1998. Í því máli var ákærði sakfelldur fyrir óvenju mörg brot gegn hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum, en brot þessi voru að mestu leyti framin þegar ákærði var 17 ára. Ákærði átti við áfengisvanda að stríða og persónuleikaröskun. Með brotum þessum rauf ákærði skilorð eldri dóms. Refsing ákærða var ákveðin skilorðsbundið fangelsi í 15 mánuði. Var frestun fullnustu refsingar m.a. bundin því skilorði að ákærði gengist undir dvöl á hæli tiltekinn tíma, allt að sex vikum, til að venja hann af notkun áfengis eða deyfilyfja. Í málinu lá fyrir að yfirlæknir SÁÁ var reiðubúinn að hafa yfirumsjón með meðferð ákærða.

Fjórði dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 18. mars 1999. Í því máli var 23 ára maður sakfelldur fyrir að aka tvívegis sviptur ökurétti. Ákærði hafði að baki nokkurn sakaferil vegna brota á umferðarlögum og áfengislögum og með broti sínu rauf ákærði skilorð fyrri dóms. Í málinu lá fyrir mat geðlæknis á áfengisvanda ákærða og þunglyndi hans. Refsing ákærða var ákveðin fangelsi í sex mánuði og var frestun fullnustu refsingar m.a. bundin því skilorði að ákærði færi í áfengismeðferð og stundaði síðan framhaldsmeðferð og meðferð við þunglyndi.

Fimmti dómurinn er frá Héraðsdómi Reykjavíkur þann 26. maí 1999. Í því máli var um að ræða dreng sem á aldursbilinu 16--17 ára hafði gerst sekur um kynferðisbrot gegn ungum stúlkubörnum. Í málinu lágu fyrir ítarlegar upplýsingar um andlegan vanþroska ákærða. Með hliðsjón af því og ungum aldri ákærða var refsing ákveðin skilorðsbundið fangelsi í átta mánuði en frestun fullnustu refsingar var m.a. bundin því skilorði að ákærði gengist undir sálfræðimeðferð á skilorðstímanum.

Sjötti dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 4. febrúar árið 2000. Þar var ungur drengur sakfelldur fyrir að hafa framið kynferðisbrot gegn barnungri systur sinni þegar hann var 15 ára. Drengurinn hafði búið við mjög erfiðar heimilisaðstæður og átti við mikinn vanda að stríða. Frestað var að ákveða refsingu ákærða en skilorð var m.a. bundið því að ákærði gengist undir sálfræðimeðferð á skilorðstíma og dveldist eftir ákvörðun barnaverndaryfirvalda í allt að eitt ár á meðferðarheimili.

Ég taldi rétt að gera grein fyrir þessum dómum þar sem ákvörðun eða fullnusta refsinga var bundin því skilyrði að dómþoli gengist undir vistun á meðferðarstofnun. Vissulega hafa dómstólar ekki beitt þessari heimild í ríkum mæli og því má e.t.v. halda fram að ástæða sé til að grípa til hennar oftar. Á hinn bóginn verður að hafa hugfast að frumforsenda þess að meðferð skili árangri er að sá sem í hlut á gangist sjálfviljugur undir meðferð og hlíti henni. Þvinguð meðferð er ekki til þess fallin að skila árangri og því væri með öllu ástæðulaust fyrir dómstóla að beita þessari heimild í beinni andstöðu við þann sem í hlut á. Einnig er nauðsynlegt þegar þessu úrræði er beitt að fyrir liggi að dómfellda standi meðferð til boða sem líkleg er til að skila árangri. Það virðist hafa verið raunin í þeim málum sem ég hef hér rakið.

Ég mun koma að fleiri atriðum, herra forseti, í seinni ræðu minni.